• Guðrún Steinþórsdóttir

Ný skáldkona mætt á ritvöllinnÞað er ekki á hverjum degi sem kona komin fast að sjötugu sendir frá sér sína fyrstu bók. Það gerðist þó nú á dögunum þegar út kom skáldsagan Hylurinn eftir Gróu Finnsdóttur. Fyrir skömmu var Gróa í bráðskemmtilegu viðtali á Vísi.is en þar kemur fram að hún hafi verið búin að lofa sjálfri sér að gefa út bók þegar hún yrði sjötug. Það tókst en stórafmælið bankar upp á síðar í mánuðinum. Í viðtalinu viðurkennir Gróa að bókin hafi verið búin að velkjast lengi í hausnum á henni og að hún hafi verið að dunda sér við að skrifa hana í um tíu ár. Hún segir jafnframt að hana hafi lengi dreymt um að senda frá sér skáldsögu, líklega ómeðvitað, allt frá því að hún var unglingur. Það er forlagið Sæmundur sem gefur út bókina.


Í sögunni eru framdir glæpir en þó er ekki um hreina glæpasögu að ræða samkvæmt Gróu:


„Ég get alla­vega lofað því að þessi bók er öðru­vísi. Hún er ekki svona hrein glæpasaga og þetta er ekki heldur svona pró­blema­saga… en hún drepur á ýmsu [].Ég vil náttúru­lega ekki vera að segja of mikið… en svo er þessi spurning líka alltaf í loftinu: Hve­nær fremur maður glæp og hve­nær fremur maður ekki glæp? Hve­nær drepur maður mann og hve­nær drepur maður ekki mann?

Sagan gerist í Borgarfirði nánar tiltekið í Borgarnesi þar sem Gróa bjó lengi vel. Aðalpersóna sögunnar er hinn skyggni Snorri en saga hans fléttast saman við sögu bóndadótturinnar Sólrúnar. Í kynningu bókarinnar segir ennfremur:


Hylurinn er dramatísk og spennandi saga af heillandi mannlífi, andlegum þroska, ástum og fallegri vináttu. En við hittum einnig fyrir hinar myrkustu hliðar mannlífsins og lesandinn dregst inn í spennu þar sem við sögu koma bein manns og hests í litlu heiðarvatni. 

Sögumaðurinn Snorri, hinn guðumlíki Stefán og sjálfsmenntaði nuddarinn Kolfinna í Borgarnesi eru þríeyki sem í sameiningu vinna kraftaverk. Við kynnumst líka systkinunum Kára og Sólrúnu sem rænd voru æsku sinni og hafa sloppið naumlega undan illum og ósanngjörnum örlögum. 


Gróa sér fram á að gera ritstörf að aðalstarfi fyrst hún er komin á eftirlaunaaldur og er full af orku eins og unglingur. Eldmóðinn vantar ekki því hún er þegar byrjuð að skrifa næstu sögu.


Skáld.is býður Gróu hjartanlega velkomna á ritvöllinn og hlakkar til að fylgjast með áframhaldandi skrifum hennar.Viðtalið við Gróu má lesa hér.


Myndin af Gróu er fengin af Linkedin-síðu hennar.