• Guðrún Steinþórsdóttir

Ný Kennarabók
Bergrún Íris Sævarsdóttir er einstaklega afkastamikill barnabókahöfundur og myndskreytir. Frá árinu 2014 hefur hún sent frá sér þrettán bækur þar á meðal Kennarabækurnar svokölluðu. Fyrsta bókin í þeim flokki, Kennarinn sem hvarf, kom út árið 2019 og var tekið fagnandi. Sagan er enda allt í senn dularfull, spennandi og skemmtileg. Bergrún Íris hlaut bæði barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur og Fjöruverðlaunin fyrir söguna en í rökstuðningi dómnefndar Fjöruverðlaunanna segir:Bergrún Íris Sævarsdóttir er fjölkunnug mjög enda bæði afbragðs listakona og rithöfundur. Bók hennar, Kennarinn sem hvarf er fimlega byggð spennusaga sem heldur lesendum á aldrinum 9-12 ára föngnum til enda. Spennusagnaformið keyrir söguna áfram en sagan er allt í senn, hröð og skemmtileg og byggð samkvæmt lögmálum hefðbundinnar frásagnar. Söguna segir 12 ára gömul stúlka sem ásamt bekkjarfélögum sínum leita horfins kennara og leysa um leið flóknar þrautir. Persónurnar virðast við fyrstu sýn fremur einfaldar og staðlaðar en þegar á reynir eru þær ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur verða þær lifandi og margræðar þegar á frásögnina líður rétt eins og frásögnin sjálf. Bygging bókarinnar ásamt persónusköpun fleytir þessari heildstæðu sögu hátt og færir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur Fjöruverðlaunin 2020

Bókinni fylgdi Bergrún Íris eftir með skemmtilegri framhaldsbók, Kennarinn sem hvarf sporlaust (2020), og nú hefur hún sent frá sér þriðju Kennarabókina, Kennarinn sem kveikti í. Í kynningu á nýju bókinni segir:


Nýr afleysingakennari tekur við BÖ-bekknum eftir ógurlegar hremmingar síðustu mánaða. Þegar krakkarnir eru sendir í dularfullan ratleik í mannlausum skólanum læðist að þeim óþægilegur grunur og ýmsar spurningar vakna.

Hvar er afleysingakennarinn?
Hver er þrautakóngurinn?
Hvern á að steikja á teini?

Í þetta sinn fylgjum við hinum einstaka, bráðgreinda en stundum misskilda Fannari í gegnum hraða, fyndna og hörkuspennandi atburðarás í bók sem fær hárin til að rísa.

Fyrri Kennarabækurnar vöku mikla lukku hjá gagnrýnendum og lesendum sem kröfðust þess að fá fleiri bækur. Bergrún Íris svarar þeirri kröfu með sinni mest spennandi bók hingað til - og sögulokum sem koma á óvart!

Það er greinilegt að Bergrún Íris er á svipuðum slóðum og fyrr og því eiga aðdáendur Kennarabókanna vafalaust von á góðu.