• Guðrún Steinþórsdóttir

Ný bók og ný rödd í Skáldatalið


Rannveig Borg Sigurðardóttir hefur bæst við Skáldatalið. Hún er menntuð í lögfræði og hefur starfað sem lögfræðingur og lögmaður víða í Evrópu en um þessar mundir vinnur hún og býr í Sviss. Undanfarin misseri hefur Rannveig, meðfram vinnu, lagt stund á meistaranám í alþjóðlegum fíknifræðum (IPAS) við King´s College í London. Námið tengist hennar fyrstu skáldsögu; Fíkn, sem kom út á dögunum. Samkvæmt Rannveigu hafði hana lengi langað til að skrifa bók og var hún langt komin með Fíkn þegar Covid skall á en þá gafst henni andrými til að klára skrifin. Skáldsagan fjallar um fíkn, ólíkar birtingarmyndir hennar og afleiðingar en kynlífsfíknin er þó í brennidepli eða eins og segir í kynningu bókarinnar:Líf Ellerts umturnast þegar hann heillast af myndlistarkonunni Freyju Negroni, sem hefur nýlega snúið heim frá Ítalíu eftir erfiðan skilnað og reynir að skapa sér nafn í íslenskum listaheimi. Ellert hefur lifað áhyggjulitlu lífi og nýtur velgengni en verður heltekinn af þráhyggjukenndri ást. Hann reynir að fylgja Freyju eftir í tryllingslegri rússíbanareið þar sem fíkn er yfir og allt um kring – kynlífið verður æ villtara og vímugjafarnir eru aldrei langt undan.

Lygarnar og svikin vinda upp á sig og bjartar vonir bresta hver af annarri. Ekki er þó alltaf ljóst hver er gerandi og hver er þolandi, enda er fíkn flókið fyrirbæri sem á sér margar hliðar.

Fíkninni fylgir stjórnleysi sem í sögunni hefur alvarlegar afleiðingar í för með sér en meðal annars er komið inn á vonbrigði, svik, lygar og eitruð samskipti.


Í nýlegu viðtali við DV segir Rannveig að hún hafi persónulega reynslu af átröskun sem hún lítur á sem sína fíkn en fyrir vikið hafi hún átt auðveldara með að setja sig í spor einstaklinga sem séu með fíkn auk þess sem námið hafi hjálpað henni að fá fræðilegt sjónarhorn á efnið. Samkvæmt Rannveigu er markmiðið með skáldsögunni ekki að draga upp fræðilegar skilgreiningar á fíkn heldur að sýna hve fjölbreytilegar birtingarmyndir hennar geta verið og hvernig fíknin kemur aftan að fólki:Þessi bók er ekki uppflettirit eða fræðirit. Ég er heldur ekki að predika yfir fólki eða dæma það. Ég vona að þetta skíni í gegn. Ég vildi birta þessa sýn eins og þegar fólk opnar dyr inn í líf fólks og tekur myndir sem sýna raunveruleikann. Svona er þetta.Það er forlagið Sögur sem gefur út skáldsöguna Fíkn en hún er einnig aðgengileg sem hljóðbók á Storytel og er um þessar mundir meðal vinsælustu bóka þar.


Skáld.is óskar Rannveigu innilega til hamingju með bókina og býður hana velkomna í Skáldatalið.