- Ritstjórn
Ný bók frá doktor Steinunni!
Í gær var Steinunn Sigurðardóttir skáld sæmd heiðursdoktorsnafnbót frá Háskóla Íslands, ásamt Hannesi Péturssyni. Og í dag kom út ný ljóðabók hennar, Tíminn á leiðinni. Í kynningu Máls og menningar á bókinni segir:

Tíminn á leiðinni er ellefta ljóðabók höfuðskáldsins Steinunnar Sigurðar-dóttur. Meginstef hennar er tíminn sjálfur, ýmist gjöfull eða grimmur; kynslóðir sem koma og fara, árstíðir, upphaf og endalok – horft er bæði inn á við og út í heiminn, á náttúruna, lífið sjálft. Ljóðmálið er leikandi létt og hnitmiðað, myndir dregnar skýrum og oft óvæntum dráttum, kaldhæðni og djúp alvara vegast á í skörpum og kjarnmiklum ljóðum.
Auk ellefu ljóðabóka hefur Steinunn sent frá sér fjórtán skáldsögur, eina barnabók, tvö smásagnasöfn og tvær ævisögur, auk þess að skrifa sjónvarpsleikrit.
Í nýju ljóðabókinni er meðal annars að finna eftirfarandi ljóð:
FEMME FATALE
Ekkert stóðst henni snúning
ekki kirsublómaskýið,
ekki rósagarðurinn.
Ekkert fagurt dýr stóðst henni snúning,
engin höfuðskepna heldur.
Ekki fyrr en Vetur Konungur gómaði hana í skógarrjóðrinu,
þar sem blágrenitrén standa vörð allan hringinn.
Frysti hana frá toppi til táar, hina óviðjafnanlegu,
litla hattinn hennar líka
og stráði gullslegnum sólarsnjó
á ljósbláa silkikjólinn síða
á drúpandi eyrnalokkana úr lapis
þangað til aðeins varð eftir hvítagull.
Við dimmumót fóru þeir að tínast út úr skóginum,
haltrandi sumir, órakaðir, jafnvel timbraðir.
Aðrir vel á sig komnir og sléttir í framan.
Slógu hring um sína óhreyfanlegu, óviðjafnanlegu,
í skógarrjóðrinu.
Kyrja lágum bassaröddum tregans
um flöktandi augnaráð hennar í stiganum,
titrandi augnhárin,
óviðjafnanlegan nefbrodd
björtu bringuna
skæru röddina
sem hljómar ofar lækkandi bassaröddum
í yfirvofandi næturheiminum, með hundslappadrífu á köflum.
(Birt með leyfi útgefanda)
Skáld.is óskar Steinunni Sigurðardóttur hjartanlega til hamingju með doktorstitilinn og nýju bókina.