• Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir

NýársljóðalesturÞað jafnast fátt á við að byrja nýtt ár með lestri ljóða og því mælum við með nýársljóðalestrinum í Gröndalshúsi á vegum Bókmenntaborgarinnar. Lesturinn verður á milli ljósaskipta; frá 10.00-17.00. Eins og í fyrra sitja gestir heima vegna heimsfaraldurs en nýársljóðalestrinum verður streymt á Facebook-síðu Bókmenntaborgar og á ruv.is. Viðburðinn á Facebook má nálgast hér.


Eftirfarandi skáldkonur munu stíga á stokk:


Anne Carson, Ásta Fanney, Brynja Hjálmsdóttir, Eva Rún Snorradóttir, Gerður Kristný, Guðrún Hannesdóttir, Hanna Óladóttir, Jóna Guðbjörg Torfadóttir, Meg Matich, Natasha Stolyarova, Nína Hjördís Þorkelsdóttir, Soffía Bjarnadóttir, Þórdís Helgadóttir og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir.

Þá munu skáldkarlarnir Bragi Valdimar Skúlason, Bergsveinn Birgisson, Eiríkur Guðmundsson, Haukur Ingvarsson, Ingólfur Eiríksson, Jakub Stachowiak, Ófeigur Sigurðsson, Kári Tulinius, Ragnar Helgi Ólafsson, Tómas Ævar Ólafsson, Þórarinn Eldjárn og Þórður Sævar Jónsson einnig lesa upp úr sínum verkum.

Síðasta ljóð dagsins á þessu ári er eftir Gerði Kristnýju og heitir „Annar í jólum“ en það hljómar á þessa leið:


Nýtt tungl lýsir gömlu mannkyni

elt upp af stakri stjörnu

Svo fer nótt að sveitum

Þú hristir heiminn

í lófa þér

snjórinn þyrlast yfir

grundir

Láttu ekki blekkjast

af brosi mínu

sýndu mildi

og víktu að mér vori


Skáld.is þakkar samfylgdina á liðnu ári og óskar lesendum gleðilegs nýs árs.