• Helga Jónsdóttir

Morkna, grotna og brotna


Á dögunum kom út þriðja ljóðabók Eydísar Blöndal sem ber titilinn Ég brotna 100% niður. Áður hefur hún sent frá sér bækurnar Tíst og bast (2017) og Án tillits (2018) en sú síðarnefnda var tilnefnd til Maístjörnunnar. Umfjöllunarefni Eydísar í nýju bókinni eru jafnt samfélagsleg og persónuleg. Sum ljóðanna fjalla til að mynda um samskipti hennar við föður sinn sem lést árið 2015 en hið persónulega fléttast saman við ákveðin samfélagsleg vandamál, sér í lagi loftslagsvána. Eydísi tekst listavel að tengja á milli þessa ólíku þema og í því samhengi er titillinn einkar vel til fundinn. Hann er auðvitað margræður og getur vísað jafnt í áfall, sem ætla má að fylgi föðurmissi, og þess sem brotnar niður í náttúrunni, líkt og appelsínan sem prýðir bókakápuna. Í nýlegu viðtali segir Eydís hugmyndina að titlinum hafa kviknað út frá maíspoka: „Ég sá þessa setningu einhvern tíma á maíspoka og tengdi mikið við hana. Mér fannst ég og pokinn eiga þetta sameiginlegt; að eiga eftir að brotna niður.“


Hið margræða niðurbrot er rauður þráður í bókinni og orðin „morkna, grotna, brotna niður“ mynda eins konar leiðarstef sem kemur endurtekið fyrir í ólíku samhengi. Í ljóðinu „Pabbi“ er náttúrulegri rotnun líkamans til að mynda stillt upp andspænis hinum eilífa plastpoka en með því móti fléttar höfundur loftslagsvánni saman við hið persónulega umfjöllunarefni:


Hann safnaði plastpokum,

geymdi þá í skúffu í eldhúsinu

þar sem þeir hrúguðust upp

ósnertir og eilífir

[…]

Hann fékk loksins að brotna niður

en eftir hann liggja hundruð samanbrotinna plastpoka

í kassa í geymslunni hjá mér

ósnertir og eilífirPlastpokasöfnunin dregur upp hversdagslega og persónulega mynd af föðurnum en samtímis verður hinn eilífi plastpoki táknrænn fyrir ákveðna firringu sem ógnar náttúrunni. Það er undirstrikað með því að framandgera plastpokann sem einhvers konar undur úr fortíðinni:


Ég veit ekki hvort þú munir eftir plastpokum

en þeir voru slitsterkir og glansandi, mikið í þá lagt

Þeir gátu borið allan heiminnÖnnur ljóð hverfast alfarið um hamfarahlýnun og má þar til að mynda nefna tvö ljóð sem fjalla um nokkuð nána framtíð, „2050, 1“ og „2050, 2“. Í því fyrra birtast vangaveltur ljóðmælanda í kjölfar heimsendaspár í fréttatíma:


Í fréttunum var sagt að árið 2050 yrði lífið á jörðinni á barmi

eyðileggingar – uppskerubrestir, vatnsskortur, styrjaldir, sjúkdómar.


Ég verð 56 ára árið 2050.


Ég mun þá líklegast ekki verja elliárunum á sólarströnd, eða hvað? Ég

hafði aldrei leitt hugann sérstaklega að elliárunum, hvað þá séð þau fyrir

mér á Tenerife, en um leið og möguleikinn var tekinn frá mér fylltist ég

af sorg. Hvað með barnabörnin mín, verða ennþá til ísbúðir sem ég get

farið með þau í?


Í fréttunum var sagt að árið 2050 yrði lífið á jörðinni á barmi

eyðleggingar – uppskerubrestir, vatnsskortur, styrjaldir, sjúkdómar.

Ekkert var sagt um flugáætlanir til Tenerife eða rekstur ísbúða.Í síðara ljóðinu um árið 2050 er aftur á móti dregin upp fögur og rómantísk mynd sem þó á sér stað í dystópískum framtíðarheimi:


Eftir ofsafenginn vetur kom sumarið aftan að okkur, heitt og þurrt

Við sátum undir sjálfstýrðu vökvunarkerfi nágranna þíns

sem úðaði vatni yfir grasblettinn sem kunni ekki lengur að vaxa

og við kysstumst í regninu


Rannsóknir höfðu leitt í ljós samband milli náttúruhljóða og hamingju

svo yfirvöld komu fyrir hátölurum þar sem áður var líf

til upprifjunar um hvernig heiminum var ætlað að vera

og við kysstumst umvafin lækjarnið og fuglasöng


Inni stritaði mamma þín við að setja upp loftræstingu í stofunni

„Við Íslendingar höfum aldrei þurft að eiga svona græjur,“

sagði hún á meðan hún brosti með engu nema tönnunum

og við kysstumst með goluna í hárinu


Við eldhúsborðið sat fullorðna fólkið og talaði saman í hálfum hljóðum

um aurskriðuvarnir, vatnsbirgðir og úthlutanir

hvort fjalirnar sem bægðu hættunum frá myndu halda mikið lengur

og við kysstumst á meðan brestirnir bergmáluðu í fjarskaÍ gerviheimi sem líkir eftir horfnum veruleika upplifir unga parið hamingju og áhyggjuleysi þrátt fyrir hættur og vandamál sem steðja að. Það kallast ef til vill á við raunveruleika lesenda því einhvern veginn tekst okkur að lifa nokkuð áhyggjulausu lífi þrátt fyrir meðvitund um „brestina sem bergmála í fjarska“. Þessari mótsagnakenndu hegðun hefur verið lýst með hugtakinu loftslagssinnuleysi (e. climate apathy) og það verður skáldinu einnig að yrkisefni í ljóði sem ber einfaldlega titilinn „Heimsendir“ og hefst á þessum línum:


Dagurinn í dag er dagurinn


þegar ég sé í símanum

les í blöðunum

heyri í útvarpinu


að dagurinn í dag sé dagurinn

þegar heimurinn ferstSíðar í ljóðinu er ábyrgð okkar á heimsendinum og firring undirstrikuð með orðunum:


Það voru ekki loftsteinar eða tortímingarsprengjur

sem þurrkuðu okkur út á augabragði


Eitthvað innra með okkur brast

og við morknuðum, grotnuðum brotnuðum niðurÞar á eftir er upphafið síðan endurtekið í örlítið breyttri mynd þar sem heimsendir er orðinn að daglegu fréttaefni:


Og á hverjum degi

sjáum við í símanum

lesum við í blöðunum

heyrum við í útvarpinu


að dagurinn í dag sé dagurinn

þegar heimurinn ferstFramsetningin dregur fram hversu hversdagsleg og áhrifalítil heimsendaspáin er orðin, hún bergmálar jú þarna einhvers staðar í fjarska en án þess þó að valda okkur of miklu hugarangri. Áðurnefnt leiðarstef sem fram kemur í ljóðinu „við morknuðum, grotnuðum, brotnuðum niður“ og sú hugmynd að eitthvað hafi brostið innra með okkur má jafnframt túlka sem bresti og firringu í mannlegu samfélagi. Í fyrrnefndu viðtali lýsir höfundur því enda yfir að rót loftslagsvandans liggi í samfélagslegri firringu neyslusamfélagsins eða „mannsandanum“ sem Eydís segir búið að brjóta niður.


Samspil hins persónulega og samfélagslega má jafnframt sjá í þeim ljóðum sem hverfast um sjálfið. Sjálfið er auðvitað persónulegt en mótast í senn af umhverfinu og samfélaginu, líkt og greina má í ljóðunum „Ofskynjun“, „Performansinn“ og „Grímurnar“. Performansinn er vísun í gjörningskenningu Judith Butler um mótun og kynjun sjálfsverunnar og bergmálar gagnrýni hennar á kynjatvíhyggjuna í þeim ljóðum. Í „Ofskynjun“ segir til dæmis:


Nýfætt barn er fullkomið. Innra með því er vegasalt sem vaggar

í kringum innbyggðan jafnvægispunktinn.

[…]

Einhvers staðar í mannkynssögunni varð röskun. Í einfeldningslegri

grunnhyggni voru eiginleikar okkar felldir undir harðlínustefnu

tvíhyggju: karls eða konu. Frá fæðingu er okkur ætlað að falla undir

annað hvort, krafin um að afneita hinu.


Og þetta köllum við kyngervi, sem er í raun brilliant

því það er nákvæmlega það sem þetta er:


gervi.„Performansinn“ kemur auk þess fyrir í titilljóði bókarinnar sem er svohljóðandi:


Ef mænan smellur í sundur

flæðir mergurinn úr beinunum


mergurinn allt það sem afsakar hvernig ég er


Grímurnar og performansinn

appelsínubörkurinn

grotnar og morknar utan af mér


eftir sit ég

ekkert nema

égÍ ljóðinu er mergurinn einhvers konar tákn fyrir sjálfið og hann kemur endurtekið fyrir í bókinni. Minningar og hugmyndafræði smjúga til dæmis inn í líkamann, blandast mergnum og móta okkur þar með eins og sjá má í ljóðunum „Minningar“ og „Firring“. Í ljóðum Eydísar er hin lífseiga hugmynd um aðgreiningu huga og líkama því víðsfjarri og myndmálið, þar sem mergurinn er sjálfið, felur í sér áhugaverða afbyggingu á þeirri tvíhyggjuhugsun.


Heimspekilegar vangaveltur sem þessar einkenna verkið enda hefur Eydís lagt stund á nám í því fagi. Þótt hún hafi lýst skrifum sínum sem sjálfsþerapíu felst mikilvægi verksins ekki síður í þeirri samfélagsgagnrýni sem hún setur þar fram. Ég brotna 100% niður á svo sannarlega erindi og það verður forvitnilegt að fylgjast með áframhaldandi vegferð og skrifum Eydísar.