• Guðrún Steinþórsdóttir

Málþing og bók um líf og list Ástu Sigurðardóttur


Þann 21. nóvember næstkomandi kemur út bókin Ástusögur. Um líf og list Ástu Sigurðardóttur en af því tilefni verður haldið málþing um listakonuna í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Þingið er öllum opið en nauðsynlegt er að panta miða til að tryggja sér sæti. Það má gera hér.


Bókin Ástusögur er gefin út á vegum Lesstofunnar en ritstjórar hennar eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Bókin inniheldur efni eftir fræðikonur, rithöfunda og börn Ástu. Fjallað er um ævi Ástu, smásögur, ljóð og myndir auk þess sem sjö skáldkonur, innblásnar af verkum Ástu, yrkja ljóð eða skrifa smásögur í bókina. Þá birtast þar einnig fjögur bréf frá Ástu til systur sinnar Oddnýjar og uppkast að smásögunni Frostrigning sem er allt önnur en sú útgáfa sögunnar sem lesendur hafa hingað til fengið að lesa.


Á málþinginu munu nokkrir höfundar bókarinnar stíga á stokk og lesin verða upp ljóð eftir Ástu sjálfa. Dagskráin hefst kl. 14:00 og er sem hér segir:


Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir – Kynning

Jórunn Sigurðardóttir – Upplestur

Kolbeinn Þorsteinsson og Silja Aðalsteinsdóttir – Ásta Sigurðardóttir – móðir og skáld: Útgáfusaga

Kristín Ómarsdóttir – Upplestur

Dagný Kristjánsdóttir – Ásta verður til: Um ímynd og höfundarvirkni Ástu Sigurðardóttur

Sigurbjörg Þrastardóttir – Upplestur

Linda Vilhjálmsdóttir – Upplestur


Hlé


Soffía Auður Birgisdóttir – „– og það út af stelpu!“: Um „Súpermann“ eftir Ástu Sigurðardóttur

Alda Björk Valdimarsdóttir – Upplestur

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir – „aðeins í laumi kemst þá ljóð á blað“: Um Ástu Sigurðardóttur, kveðskap hennar og tímana sem hún lifði

Guðrún Hannesdóttir – Upplestur

Dagný Þorsteinsdóttir – Mamma mín, minning mín

Jórunn Sigurðardóttir – Upplestur