• Helga Jónsdóttir

Lumar þú á jólasögu?


Sagan Nornin í eldhúsinu varð fyrir valinu fyrir jóladagatalið 2020. Hana skrifaði Tómas Zoëga og Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir teiknaði myndirnar.

Líkt og undanfarin ár mun Borgarbókasafnið bjóða upp á jóladagatal í máli og myndum á aðventunni fyrir börn á leikskóla- og grunnskólaaldri. Dagatalið er birt á miðlum safnsins og frá 1.-24. desember birtist daglega nýr kafli fyrir börn og foreldra að lesa saman. Jólasagan er einnig lesin inn og hægt að hlusta á hana í Hlaðvarpi Borgarbókasafnsins. Þá er myndefnið notað í kynningarefni og prentaðan varning eins og t.d. bókamerki sem dreift er til gesta safnsins.


Sú leið hefur verið farin að efla til samkeppni um handrit að jólasögunni og því óskar Borgarbókasafnið nú eftir umsóknum frá rit-og myndhöfundum. Mælst er til þess að sett sé fram hugmynd að efnistökum sögunnar og einnig sýnishorn af teikningum.


Tilkynnt verður um vinningshafa 5. september en þeir fullvinna síðan söguna sína og skila henni inn 17. október. Fyrir verkið fá rit- og myndhöfundar greiddar 225.000 kr hvor, nema sami höfundur standi að baki texta og myndskreytingum, þá fær hann 450.000 kr.


Tekið er við umsóknum gegnum netfang Guðrúnar Dísar Jónatansdóttur, gudrun.dis.jonatansdottir@reykjavik.is, en hún veitir jafnframt nánari upplýsingar um samkeppnina.


Umsóknarfrestur er til 22. ágúst og Skáld.is hvetur allar skrifandi konur til að koma sér í snemmbúið jólaskap og taka þátt.