SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir12. nóvember 2020

Ljóð, glæpur, múmínálfar og heimsins furðulegasti fiskur

Þórdís Gísladóttir er afkastamikill rithöfundur og þýðandi. Hún hefur sent frá sér ljóðabækur, barna- og unglingabækur og kennslubækur ásamt fjölda þýðinga. Í ár sendir Þórdís frá sér ljóðasafn, unglingabók og tvær þýðingar.

Ljóð 2010-2015 geymir fyrstu þrjár ljóðabækur Þórdísar sem hafa verið ófáanlegar um langt skeið. Um ljóðasafnið segir á vef Forlagsins:

Þetta eru bækurnar Leyndarmál annarra (2010) sem hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, Velúr (2014) sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Tilfinningarök (2015).

Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur ritar formála.

Þá sendir Þórdís frá sér bók ætluð ungmennum sem hún skrifar ásamt Hildi Knútsdóttur en þær hafa áður skrifað saman unglingabækur, um Dodda, og hlotið lof fyrir. Bókin heitir Hingað og ekki lengra! og segir um söguþráðinn á vef Forlagsins:

Ef þið hafið aldrei skipulagt glæp og beðið í marga klukkutíma eftir því að foreldrarnir sofni til að geta laumast út og látið til skarar skríða getið þið ábyggilega ekki ímyndað ykkur hvernig tilfinningin er. Það er sko mun erfiðara en að bíða eftir jólunum. Þá hlakkar maður til einhvers. Það er þúsund sinnum verra að bíða eftir einhverju sem maður kvíðir fyrir.

Hingað og ekki lengra! fjallar um Vigdísi Fríðu og vinkonur hennar, þrettán ára stelpur sem láta ekki valta yfir sig. Glæpur kemur sannarlega við sögu en bókin er samt hryllilega fyndin.

Auk þessa eru nýkomnar út tvær þýðingar eftir Þórdísi. Seint í nóvember eftir Tove Janson, sem birtist nú í fyrsta skipti á íslensku, og verðlaunabókin Álabókin eftir Patrik Svensson.