• Helga Jónsdóttir

Ljóðakall fyrir Ljóðstaf Jóns úr Vör


Skáldkarlinn Jón úr Vör lést árið 2000 og ári síðar var stofnuð ljóðasamkeppni honum til heiðurs sem nefnist Ljóðstafur Jóns úr Vör. Nafnið vísar í forláta verðlaunagrip sem vinningshafinn varðveitir í ár í senn en það er silfurskreyttur göngustafur úr eigu Jóns. Verðlaunin eru veitt árlega og afhend á fæðingardegi skáldsins þann 21. janúar.

Í gegnum árin hafa mörg hæfileikarík skáld hlotið verðlaunin en þar á meðal eru skáldkonurnar, Björk Þorgrímsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Hallfríður J. Ragnheiðardóttir, Steinunn Helgadóttir, Gerður Kristný, Jónína Leósdóttir, Guðrún Hannesdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og nú síðast Þórdís Helgadóttir.


Þórdís fékk verðlaunin fyrir ljóðið „Fasaskipti“ sem jafnframt birtist nýlega í hennar fyrstu ljóðabók, Tanntöku, en það má líka lesa hér. Í nýlegu viðtali á Skáld.is talaði Þórdís um mikilvægi verðlaunanna, hversu mikil viðurkenning og hvatning þau væru fyrir hana sem ljóðskáld og sagði í því samhengi að þau hefðu orðið til þess að hún fékk sjálfstraust til að skrifa ljóðabókina sem nú er nýkomin út.


Nú fer að líða að skilafresti ljóðasamkeppninnar í ár en hann er til og með 5. nóvember 2021. Nánari upplýsingar um verðlaunin og hvernig taka megi þátt er að finna á síðu Menningarhúsanna í Kópavogi. Fyrir utan hinn glæsilega og ævintýralega ljóðstaf hlýtur verðlaunaskáldið peningaverðlaun og eflaust ómetanlega viðurkenningu. Skáld.is hvetur auðvitað allar skrifandi konur til að senda inn ljóð! Líkt og Þórdís orðar það í áðurnefndu viðtali er um að ræða lottó sem „kostar ekki neitt en er til mikils er að vinna“!