• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Ljóðakaffi til heiðurs Vilborgu Dagbjartsdóttur


Næstkomandi miðvikudagskvöld verður minning Vilborgar Dagbjartsdóttur heiðruð með ljóðalestri og umfjöllun á Ljóðakaffi í Borgarbókasafninu Gerðubergi.

Dagskráin hefst kl. 20 og lýkur kl. 22.


Gerður Kristný rithöfundur flytur erindi um skáldið og konuna Vilborgu sem hún þekkti persónulega og hefur fjallað um á öðrum vettvangi. Þá verða valin ljóð lesin upp af Ólöfu Sverrisdóttur leikkonu og Soffíu Bjarnadóttur rithöfundi auk þess sem gestir eru hvattir til að flytja sín uppáhaldsljóð og taka virkan þátt í spjalli um skáldskap Vilborgar.


Vilborg Dagbjartsdóttir skáld lést á síðasta ári en hún fæddist 18. júlí 1930. Hún var með fyrstu konum hér á landi til að skrifa á frjálsu og flæðandi ljóðmáli. Fyrsta ljóðabókin hennar Laufið á trjánum kom út 1960 en þá var fáheyrt að konur skrifuðu atómljóð. Vilborg var ein þeirra kvenna sem stofnuðu Rauðsokkahreyfinguna og tók hún alla tíð virkan þátt í jafnréttisbaráttu kvenna. Ljóð hennar bera vitni um það en þau fjalla gjarnan um reynsluheim kvenna. Vilborg skrifaði og þýddi fjölda barnabóka og starfaði sem kennari við Austurbæjarskóla í 43 ár.


Öll eru hjartanlega velkomin á viðburðinn og er aðgangur ókeypis. Gestir geta keypt sér kaffi og meðlæti á kaffihúsinu áður en dagskráin hefst.