• Guðrún Steinþórsdóttir

Ljóðakaffi með Lindu og Diddu


Miðvikudaginn 13. október verður Ljóðakaffi í kaffihúsinu í Gerðubergi. Fram koma skáldkonurnar Linda Vilhjálmsdóttir og Sigurlaug Didda Jónsdóttir. Einkennandi fyrir ljóð þeirra er ákveðinn uppreisnarandi, hugrekki og sjálfsskoðun.


Linda er þekktust fyrir ljóðin sín en hún hefur einnig skrifað leikrit, sjónvarspmyndarhandrit og skáldsögu. Fyrsta ljóðabók hennar var Bláþráður sem kom út árið 1990 en síðan hefur hún sent frá sér sjö ljóðabækur til viðbótar. 2015 kom út ljóðabókin Frelsi sem fékk fjölda verðlauna en fyrir ýmar aðrar bækur hefur Linda einnig fengið viðurkenningar eða tilnefningar til verðlauna. Síðasta ljóðbók hennar, Kyrralífsmyndir, frá árinu 2020 var til að mynda tilnefnd til Maístjörnunnar.


Didda hefur gert margt og mikið og mun halda því áfram. Fyrr í ár sendi hún frá sér bókina Hamingja sem fjallar um ýmsar myndir hamingjunnar. Samkvæmt Diddu eru textarnir í bókinni ekki ljóð heldur romsa eða jafnvel bara langt póstkort. Fyrsta ljóðbók hennar var Lastafans og lausar skrúfur sem kom út árið 1995. Bókin vakti mikla athygli og í kjölfarið sendi hún frá sér tvær skáldsögur. Þá hefur hún einnig birt ljóð og greinar í ýmsum tímaritum. Fyrir hlutverk sitt í kvikmynd Sólvegar Anspach, Stormviðri (2003), fékk Didda Edduverðlaunin.


Eins og kemur fram í lýsingu á viðburðinum er Ljóðakaffi „vettvangur fyrir alla að lesa upp ljóðin sín. Eftir hlé eru ljóðaáhugamenn og skáld meðal gesta hvattir til að lesa upp ljóð sem þeir hafa geymt í skúffunni eða í tölvunni.“


Ljóðakaffið hefst klukkan 20:00 og eru allir hjartanlega velkomnir.