• gus2605

Lestrargleði fyrir krakka í boði Arndísar Þórarinsdóttur


Í sumar stendur barnabókahöfundurinn og ljóðskáldið Arndís Þórarinsdóttir fyrir leshringnum Lestrargleði fyrir krakka á aldrinum átta til tólf ára. Leshringurinn hittist vikulega í klukkustund á mánudögum frá 16:30 í bílskúr Arndísar í Safamýri 25. Eins og kemur fram á Facebook-síðu leshringsins er markmiðið að hittast, ræða saman og njóta góðra bókmennta auk þess að þjálfa krakkana í að orða hugsanir sínar og greina hvað höfðar til þeirra í bókum. Það er hvorki mætingarskylda né þörf á að skrá börnin fyrir fram en fundirnir eru þeim að kostnaðarlausu.


Bækurnar sem eru á dagskrá eru bæði fjölbreyttar og skemmtilegar. Leshringurinn hefur hist þrisvar sinnum og rætt bækurnar Öðruvísi dagar eftir Guðrúnu Helgadóttur, Steindýrin eftir Gunnar Theodór Eggertsson og Biobörn eftir Yrsu Sigurðardóttur. Sex skipti eru eftir en næstu bækur á dagskrá eru Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó eftir Þorvald Þorsteinsson, Strandanornir eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur, Brúin yfir Dimmu eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson, Flateyjarbréfin eftir Kristjönu Friðbjörnsdóttur, Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlingsson og Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;) eftir Margréti Örnólfsdóttur.Leshringurinn Lestrargleði er sannarlega frábært framtak og vonandi nýta margir krakkar sér þetta skemmtilega lestrartækifæri. Gaman væri ef fleiri fetuðu í spor Arndísar og stofnuðu leshringi fyrir börn í sínu nærumhverfi því eins og skáldkonan hefur bent á „eru rólegheitastundir þar sem börn og fullorðnir spjalla saman á jafningjagrundvelli um góðar sögur alveg ómetanlegar“ auk þess sem mikilvægt er „að kenna börnunum að leita í bókina, að tengja jákvæðar tilfinningar við bóklestur.“