• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Leitin eilífa að ástinni

Ástin er undarlegt fyrirbæri og þversagnakennt. Hún seiðir fólk til sín og sviptir það ráði og rænu; hún er hvunndagur og kraftaverk, full af fyrirheitum og sárum vonbrigðum í senn; djúpri hamingju og nístandi angist. Allt snýst um hana í veruleika og skáldskap; og sennilega eru allar bókmenntir ástarsögur öðrum þræði ef grannt er skoðað.


Í hjónabandshöfn

Í Ástarsögum íslenskra kvenna sem út kom 2016 hafa söfnuðu Lilja Þrastardóttir og Rósa Björk Bergþórsdóttir saman allnokkrum reynslusögum af ástinni. Markmiðið var að fanga íslenskan veruleika, eins og segir í inngangi, og leggja eyrun við rödd kvenna um upplifun þeirra af ástinni. Margar sagnanna eru áþekkar að byggingu, efasemdir skjóta upp kolli eftir fyrstu kynni, hindranir og hömlur taka völdin um hríð en við sögulok er oft dreginn lærdómur af öllu saman. Stundum endar sagan með höfnun, sorg og eftirsjá og í bókinni má finna uppskrift til að bæta líðan eftir slíka upplifun (74). En oftast endar sagan vel:

„Það er nefnilega svo að við erum ekki öll að leita að sömu ástinni, ekki öll að leita að því sama. Nú hef ég opnað hjarta mitt og fundið einstakling sem er tilbúinn að elska mig, kosti, galla, gáfur, allt í einni bunu og ég er tilbúin að gera slíkt hið sama. Nú er hversdagsleikinn það besta sem ég veit og hamingjan með honum er ótrúleg tilfinning“ (172).


Að sofa saman

Furðulega gamaldags hugmyndir um kynhlutverk eru þó á sveimi í sumum sögunum, s.s. að sofa ekki hjá á fyrsta deiti, bíða eftir að hann hringi, ekki láta of mikið uppi um tilfinningar sínar, ótti um að hann hafi verið „nota mig“. Og frumkvæðið þarf að koma frá karlinum: „Hann gaf mér aðeins sakleysislegan koss að skilnaði og við það fann ég hve óþreyjufull ég var orðin yfir að eitthvað meira myndi gerast“ (28). Þá svífur yfir vötnum sú hugmynd að einhleyp kona sé ófullkomin vera og hún er alltaf að leita að sínum týnda helmingi, þeim „eina rétta“(t.d. 63, 187) Enn virðist madonnu-/hórusyndrómið íþyngja konum þegar kemur að því að taka frumkvæði í ástamálum; ekki má kona vera of ýtin eða örvæntingarfull (t.d. 101). Er þetta virkilega svona? Eru konur ekki gerendur í eigin ástarsögum? Og er aðaltilgangur lífsins að finna maka og eignast börn?


Margar sagnanna birta svipaða hugmyndafræði um rómantík og samskipti kynjanna og sést í 19. aldar skáldsögum og læknarómönum. Að auki er kynlíf að mestu undanskilið í þessum sögum nútímakvenna af ástinni sem sætir nokkurri furðu á frjálslyndum tímum. Oftast er notað orðasambandið „að sofa saman“ um kynlífið sem virkar í besta falli teprulegt.


Jafnrétti kynjanna

En það er samt eitthvað við þessa bók. Hún nær því að vera á einlægum og persónulegum nótum, þótt langflestir höfundanna séu nafnlausir. En er sá veruleiki sem er dreginn upp í sögunum sannur og viðtekinn? Það er flókið mál en það hvarflar að manni við lesturinn hvort ástin sé hreinlega stærsta hindrunin í að fullkomið jafnrétti náist milli kynjanna.


En takk, þið konur sem lögðuð orð í belg og opnuðuð hjarta ykkar fyrir lesendum. Fjórum árum síðar komu út Ástarsögur íslenskra karla en það reyndist aðeins erfiðara að draga sögur upp úr þeim. Kynlífið var þeim tamara á tungu og klámþoka þvældist fyrir (sjá viðtal við höfundana í Fréttablaðinu).