• Helga Jónsdóttir

Lóa Hlín og sköpunarkrafturinn


Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er þekktust fyrir myndasögur sínar sem hverfast jafnan um spaugilegar hliðar hversdagsleikans og oft örlítið undarlega en þó svo kunnuglega hegðun sem margir eiga eflaust auðvelt með að tengja við.


Lóu er margt til lista lagt en auk þess að fást við myndasagnagerð hefur hún stundað myndlist, starfað sem tónlistarkona, sent frá sér barnabókina Grísafjörð og skrifað handrit að sjónvarpsþáttum og Áramótaskaupinu.


Lóa virðist seint uppiskroppa með hugmyndir en fyrir árið 2020 setti hún sér það markmið að teikna eina mynd á dag sem hún og gerði og gaf út í bókinni Dæs árið 2021. Það er því forvitnilegt að vita hvaða aðferðum hún beitir til að virkja sköpunarkraftinn og hvert hún sækir innblástur. Það mun hún einmitt ræða í höfundaspjalli á morgun í Bókasafni Kópavogs. Viðburðurinn ber yfirskriftina „Lóa Hlín og sköpunarkrafturinn“ og er partur af hádegisviðburðunum Menningu á miðvikudögum sem fram fara á bókasafninu milli kl. 12:15 og 13.


Nánari upplýsingar um þennan spennandi viðburð er að finna á heimasíðu Bókasafns Kópavogs.