• Soffía Auður Birgisdóttir

Kvöldsagan: Samastaður í tilverunni

Í síðustu viku hófst lestur Steinunnar Sigurðardóttur á dýrðarbókinni SAMASTAÐUR Í TILVERUNNI eftir Málfríði Einarsdóttur á rás 1. Það eru ríflega þrír áratugir frá því að Steinunn las bókina fyrir útvarp en hún var áður á dagskrá 1990.Samastaður í tilverunni er fyrsta bókin sem kom út eftir Málfríði, árið 1977 þegar hún var 78 ára gömul. En Málfríður hafði lengi fengist við skriftir og þýðingar og var mörgu bókmenntafólki kunn. Það var þó ekki fyrr en Sigfús Daðason kynntist handritum hennar að verk Málfríðar komust í bókarform, en það var útgáfa Sigfúsar, Ljóðhús, sem gaf bækur hennar út.


Segja má að Málfríður hafi slegið í gegn með sjálfsævisögulegu verkum sínum, ári síðar kom ÚR SÁLARKIRNUNNI, sem er frábær líkt og Samastaðurinn. Þessar tvær bækur voru geysivinsælar enda stíll og aðferð Málfríðar engu öðru líkt; hún er bullandi fyndin og meinhæðin um leið og hún segir sára lífsreynslusögu. Í texta Málfríðar úir og grúir af snjallyrðum og óborganlegum setningum sem lifa lengi í huga lesenda, setningar á borð við: "Ætíð hef ég átt samastað, að minnsta kosti hefur aldrei farið svo, að ég hafi þurft að vera hvergi".


1981 kom út bók sem bar titilinn BRÉF TIL STEINUNNAR. Titilinn vísar að sjálfsögðu til Bréfs til Láru eftir Þórberg, enda margt sameiginlegt með aðferð þessarra tveggja snillinga. Það vita kannski ekki allir að Steinunn sú sem vísað er til í titlinum er einmitt Steinunn Sigurðardóttir, lesari kvöldsögunnar.


Lestur Steinunnar Sigurðardóttur er framúrskarandi og við hvetjum þá sem hafa áhuga á bókmenntum að missa ekki af þessari veislu. Það má nálgast alla lestranna hér.