• Helga Jónsdóttir

Kvár: hvað er að vera kynsegin?„Kvár,-s, --HV.

ókyngreind

manneskja“


Í vor kom út bókin Kvár eftir teiknarann og grafíska hönnuðinn, Elísabetu Rún Þorsteinsdóttur. Hún hefur áður sent frá sér grafísku nóvelluna Plöntuna á ganginum (2014), í samvinnu við systur sína Elínu Eddu Þorsteinsdóttur, en Kvár er útskriftarverkefni Elísabetar úr Listaháskóla Íslands. Líkt og undirtitillinn ber með sér fjallar bókin um hvað það er að vera kynsegin, „að skilgreina sig utan kynjakerfisins; að upplifa sig hvorki karlkyns né kvenkyns, hvort tveggja í senn eða eitthvað allt annað.“ [1]„Þegar fólk spyr mig hvers kyns ég er þá...“

Í greinargerð um verkið lýsir Eísabet Kvár sem heimildarmyndasögu, og raunar fyrstu íslensku heimildarmyndasögunni, en hún byggir verkið á viðtölum sem hún tók við sex kynsegin einstaklinga, sex kvár, skoðunum þeirra og reynslu. [2]Hann, hún, hán - kona, karl, kvár

Einn kafli bókarinnar hverfist um tungumálið og í máli viðmælenda kemur skýrt fram mikilvægi þess að tungumálið nái yfir veruleika þeirra sem skilgreina sig, og eru, hvorki karl né kona.

„Ég fattaði þá að ástæðan fyrir að mig langaði alls ekki að koma til Íslands var að hér var ekkert kynsegin tungumál“

Einn viðmælendanna, Alda Villiljós, bjó ásamt kunningja sínum til persónufornafnið hán, sem flest ættu vonandi að þekkja. Þótt persónufornafn fyrir kynsegin fólk hafi verið mikilvægt skref vantaði þó enn nafnorð yfir hópinn því líkt og annar viðmælandi bókarinnar, Hrafnsunna, lýsir er þreytandi að vera alltaf lýst sem kynsegin einstaklingi: „Ég vil bara að það sé nafnorð. Ég vil ekki að við séum bundin við það að vera lýsingarorð: Karl, kona og kynsegin einstaklingur.“


Hrafnsunna er orðasmiður orðsins kvár sem bar sigur úr býtum í keppninni Hýryrði 2020.


„Ég vil ekki að við séum bundin við það að vera lýsingarorð“

Leikur með klisjur og einfaldleikinn í fyrirrúmi

Elísabet segist meðvitað hafa leikið sér með kynjaklisjuna bleikan og bláan við val á áherslulitum fyrir myndasöguna. Hún snýr þó upp á klisjuna með því að nota ljósan bláan lit og með honum sterkan rauðan sem þó hefur bleikan tón í sér. Teikningarnar í verkinu eru nokkuð einfaldar og grafískar en hugmynd Elísabetar var að með því móti fengju persónurnar og upplifanir þeirra betur notið sín. [3]


„Ég held að börn hafi svo endalausa getu til að skammast sín“

Myndasöguformið er afar góður miðill fyrir efnið sem Elísabet vinnur með í verkinu. Hinar látlausu myndir miðla sterkt tilfinningum persónanna og auka án efa samlíðan lesandans með þeim og þar með skilning á kynsegin veruleika.
Elísabet Rún var nýlega í viðtali í Tengivagninum á Rás 1 sem hlýða má á hér. Hún hefur jafnframt umsjón með þriggja þátta útvarpsþáttaröð sem ber heitið Kynsegin og verður flutt á Rás 1 nú um Verslunarmannahelgina, 31. júlí, 1. ágúst og 2. ágúst kl. 16:05.
Tilvísanir:


[1] Elísabet Rún Þorsteinsdóttir. 2021. Kvár, bls. 3. B.A. verkefni. Listaháskóli Íslands. Reykjavík. Vefslóð: http://hdl.handle.net/1946/39117 [sótt 30. júlí 2021]


[2] Sama heimild


[3] Sama heimild, bls. 17