• Soffía Auður Birgisdóttir

Kristín Bjarnadóttir látin

Þitt er orðið. Landslagið áttu líka

hughrif liti dýgræna gleymsku jarðar

svartan lokk sem hillingar gáfu auga

stynjandi hafsins


Þitt er landslag sjávarins jafnt sem láðar

ef þú kannt að ljóðmæla víðáttunni

handan dauða heimanvið kviku lífsins

óbrotnu einu
Kristín Bjarnadóttir, ljóðskáld, leikkona og tangódansari, lést í Gautaborg þann 1. október 73 ára gömul, en hún var búsett í Svíþjóð frá árinu 1985. Kristín var fædd á Blönduósi 1948, Önfirðingur í móðurætt en húnvetnsk í föðurætt, eins og hún lýsti sjálf uppruna sínum.


Kristín gaf út ljóðsöguna Því að þitt er landslagið 1999 og af hendingunum hér að ofan, sem eru hluti af ljóðinu, má sjá hversu gott vald Kristín hafði á íslenskri tungu og hversu snjallar og margræðar myndir hún málar með orðum.


Því að þitt er landslagið hefur undirtitilinn Þættir Veru frá Tungu og segir þar frá ferðalagi Steinvarar, Marþallar og Vilfríðar yfir hafið. Raddir þessara þriggja kvenna, sem geta má sér til um að séu allar hluti af sjálfi skáldkonunnar, mynda saman vef sem ofinn er úr margræðu ljóðmáli kveiktu af íslenskri náttúru, minningum, brotgjörnum tilfinningum og vonum Veru frá Tungu - sem bíður ferðalaganna óþreyjufull handan við hafi.


Ljóðmál Kristínar er spunnið úr samspili náttúru, tungumáls og hugveru og er Því að þitt er landslagið ein athyglisverðasta tilraun með ljóðformið sem gerð hefur verið á sviði íslenskrar ljóðlistar. Ekki er síst athyglisvert hvernig Kristín sækir innblástur og myndmál sitt til hefðarinnar, sér í lagi til íslenskra þjóðsagna og ævintýra.


Á síðari hluta ævinnar lagði Kristín stund á tangódans af mikilli ástríðu og bera tvær síðustu bækur hennar þess glöggt vitni, Heimsins besti tangódansari (2005) og Ég halla mér að þér og flýg (2007)


Í skáldverkum Kristínar eru ferðalög endurtekið þema, enda var hún sönn heimskona sem ferðaðist víða og veitti áhrifum frá ferðum sínum inn í skáldskapinn. Auk skáldverka sendi Kristín frá sér viðtalsbækur, leikverk og þýðingar.


Skáld.is vottar aðstandendum og vinum Kristínar Bjarnadóttur innilega samúð.