• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Kraftur í kveneðlinu

Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir (f. 1951) bætist nú í skáldatalið. Hún sendi frá sér fjórar ljóðabækur á tuttugu ára tímabili. Ein þeirra heitir Andlit í bláum vötnum (1987) en titillinn kom frá vinkonu Ragnhildar Pálu, Nínu Björk Árnadóttur, segir í frétt í Alþýðublaðinu, þann 4. desember 1987. Þá birtist einnig þessi mynd af þeim saman með nýju bókina.

Ragnhildur Pála er alin upp af konum; móður sinni, ömmu og þriðju konunni sem móðir hennar tók ung undir sinn verndarvæng. Hún vandist því snemma að setja allt sitt traust á konur, og að konur séu veikara kynið - það finnst henni fráleitt. Henni hefur alltaf fundist hið kvenlega í manneskjunni og náttúrunni æðra því karllega, segir um hana í tímaritinu Veru, frá 1991. Í viðtalinu segir hún m.a.


- Mér líkar betur orðið kvenfrelsisbaráttan en jafnréttisbarátta, vegna þess að í orðinu kvenfrelsi felst hin mikla andlega leit kvenna - leitin að okkar eigin krafti, eigin táknum og eigin skilgreiningum á okkur sjálfum. Mér finnst búa svo mikill kraftur í kveneðlinu og þessi kraftur hefur mjög lengi verið bældur. Sköpunargáfa okkar hefur til dæmis verið bæld í gegnum aldirnar, af því að við áttum að vera svo góðar og hreinar.
Ég bældi lengi minn eigin sköpunarkraft. Ég lagði mig svo eftir því að vera góð að ég gat ekki einu sinni leyft mér að hugsa vondar hugsanir. Ég gekk voðalega langt í því að vera góð og það hélt mér niðri andlega. Eins og svo margar aðrar konur gat ég ekki hugsað frjálst vegna þessarar góðsemi minnar. Að lokum rak ég mig á vegg og varð að fara að vinna eitthvað með þessa yfirdrifnu góðsemi. Um þetta varð ég meðvituð vegna hinnar andlegu leitar minnar.

Eftirfarandi ljóð er úr Faðmlagi vindsins:TÍÐABLÓÐ KONUNNAR


Blóðið

er mínar launhelgar


mitt haf

djúpt leyndardómsfullt


minn himinn

fullur af stjörnum

blóðið


sem fylgir árstíðunum

mánuðunum tólf


launhelgar afls míns

og Gyðju


lífsins og upprisu þess


það er hið rauða kornax

í Gyðjunnar hendi


er hafið

sem hún rís úr

löðrandi


í frjósemi
Mynd úr Kvennablaðinu Veru, 3. tbl. 1991