• Soffía Auður Birgisdóttir

Konur og læknar - í bókum og lífinu


Í nýútkomnu greinasafni Fléttur V: #MeToo er meðal annars að finna grein eftir bókmenntafræðinginn Guðrúnu Steinþórsdóttur sem nefnist "Kona fer til læknis". Þar fjallar Guðrún um ýmis vandkvæði í samskiptum kvenna og lækna, eða eins og segir í ágripi:


"Í greininni er fjallað um frásagnir af erfiðum samskiptum kvenna við heil-brigðiskerfið sem hafa reglulega komið fram jafnt á netinu, í blaðaviðtölum og í greinum en einnig í skáldsögum og ævisögum. Algengt þema í slíkum sögum er að konurnar sem segja þær mæti litlum skilningi, læknar hlusti ekki á þær, segi þeim að hreyfa sig meira og þar með grenna sig, greini veikindi þeirra skakkt og/eða finnist ekki þörf á að senda þær í frekari rannsóknir. Í greininni er rætt um sögur af þessu tagi, eðli þeirra og afleiðingar."

Guðrún vísar í bókmenntir eftir konur sem fjalla um samskipti sögupersóna við lækna, til að mynda Grandaveg 7 (1994) eftir Vigdísi Grímsdóttur, "þar sem sagt er frá ólíkum viðbrögðum hjóna við barnsmissi", og Læknamafíuna (1980) eftir Auði Haralds en í þeirri skáldsögu "segir frá þriggja barna einstæðri móður sem hefur sáran verk í síðunni og erfiðum samskiptum hennar við lækna sem meðal annars hlusta ekki á hana, greina veikindi hennar skakkt og hafa ekki áhuga á að senda hana í frekari rannsóknir". Önnur skáldsaga sem kemur upp í hugann og fjallar um erfið samskipti konu og lækna er Sólin og skugginn (1981) eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur - og vafalaust má finna margar fleiri ef að er gáð.Eins og getið er í neðanmáli í grein Guðrúnar hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra "ákveðið að láta kortleggja heilsufar landsmanna út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum og gera mat á því hvort heilbrigðisþjónustan taki mið af ólíkum þörfum kynjanna". Það eru góð tíðindi og tímabært að greina þennan vanda og uppræta hann.