• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Konur í Tímariti Máls og menningar


Tímarit Máls og menningar er bókmenntatímarit sem stofnað var í mars 1938 og hefur komið út allar götur síðan. Útgefandi var samnefnt bókmenntafélag en í stjórn sátu Kristinn E. Andersson, Halldór Laxness, Halldór Stefánsson, Eiríkur Magnússon og Sigurður Thorlacius. Kristinn E. Andrésson ritstýrði tímaritinu og var framkvæmdastjóri Máls og menningar allt frá stofnun 1937 til ársins 1971.


Það er gaman að fletta gömlum árgöngum af tímaritinu og svipast um á sviði löngu horfins tíma. Þá voru konur vissulega lítt áberandi á ritvellinum en þeim fór þó fjölgandi og það er áhugavert að sjá hvaða skáldkonur hlutu náð fyrir augum karlanna. Á upphafsárum tímaritsins, fyrstu þrjú árin, má sjá að þær eru þrjár, Theodóra Thoroddsen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Guðfinna Jónsdóttir. Theodóra er þar fyrirferðamest.


Í fyrsta tölublaði fyrsta árgangs tímaritsins er birtur ritdómur Theodóru Thoroddsen um bók Jóhannesar úr Kötlum, Hina hrímhvítu móður. Dómurinn er stuttaralegur en lofsamlegur. (1938:1, bls. 18)

Fyrsti ritdómur um verk konu birtist einnig snemma, eða í þriðja tölublaði fyrsta árgangsins, í nóvember 1938. Þar er fjallað um ljóðabók Ingibjargar Benediktsdóttur, Frá afdal - til Aðalstrætis: ljóðmæli frá sama ári. Ritdómurinn er nokkuð jákvæður í garð Ingibjargar þó svo að „höfundurinn virðist ekki gera kröfu til mikillar skáldfrægðar og lætur lítið yfir sér í kvæðunum.“ Ekki kemur fram hver skrifar ritdóminn. (1938:3, bls. 16)Annar ritdómur um verk konu birtist í mars 1939 en þar fjallar Ólafur Jóh. Sigurðsson um Þulur eftir Theodóru Thoroddsen. Hann fer mörgum fögrum orðum um þulurnar og fagnar því að þær hafi verið endurvaktar. Það er grunnt á nostalgíunni: „- Sá sem hefur horft á móður sína á hálfrokknu vetrarkvöldi, framan við rauða glóð í stónni, mætir þessum þulum eins og gömlum og hjartfólgnum vinum.“ (1939:1, bls. 10)


Í fyrsta tölublaði frá árinu 1940 er birt frásögn, endurminning, eftir Theodóru Thoroddsen sem ber yfirskriftina Skuldin en þar endurskoðar hún viðhorf sitt til barnauppeldis (1940: 1, bls. 36-39). Þetta sama ár verður tímaritið mun veglegra, brotið stærra og blaðsíður talsvert fleiri. Til dæmis má nefna að árgangurinn árið 1939 er samtals 88 blaðsíður en árgangurinn árinu síðar er samtals 264 blaðsíður. Það er talsverð aukning og henni samhliða er farið að birta vel valin ljóð eftir skáldkarla og stöku skáldkonu.


Fyrsta ljóð eftir konu birtist í öðru hefti tímaritsins árið 1940. Það er eftir Guðfinnu Jónsdóttur og ber titilinn Velferð konungsins. Ljóðið er mjög lýsandi fyrir þá ógnvekjandi stríðstíma sem ríkja á þessum tíma, líkt og lesa má hér:


(1940:2, bls. 164)