• Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir

„Kannski er ég bara að bulla - til þess er ég; er það ekki?“Þórunn Valdimarsdóttir er afkastamikill og fjölhæfur höfundur. Hún skrifar jöfnum höndum sagnfræði, skáldsögur, ljóð og ævisögur. Í skáldskap hennar skarast jafnframt mörk þessara greina og úr verður skemmtilegt sambland skáldskapar og veruleika; eða eins og Þórunn orðar það „drullukökur, sem gaman er að gera og setja í blóm“. Við heimsóttum Þórunni á sjarmerandi heimili hennar í gamla Vesturbænum og spjölluðum við hana um skáldskapinn, sagnfræðina, sköpunarferlið og lífið sjálft.Hvað kom til þess að þú varðst rithöfundur, var það alltaf ætlunin?


Ég fékk verðlaun fyrir ritgerð í barnaskóla sem við áttum að skrifa eftir ferð á sýningu eftir Ásgrím Jónsson með dásamlegum barnaskólakennara, Vigdísi Hermannsdóttur. Mér leið illa að fá verðlaunin því ég var fölsk og skrifaði á skrúðmáli: „Myndirnar eru dásamlegar“, skrifaði ég og hvert orð í tóntegund Vigdísar. Það gaf mér örugglega sjálftraust varðandi skriftir að lesa bók eftir móður mína lítil. Mamma skrifaði tvær bækur og ekki má ég vanþakka blóð föður míns. Pabbi átti nálægan frænda Guðmund Inga Kristjánsson skáld, hann gaf út Flugumferðastjóratal og skrifaði þar sögu stéttar sinnar. Ef ég væri af skósmíðafjölskyldu kynni ég að smíða skó, eðlilega þroskast það sem liggur í loftinu heima. Ég minnist þess ekki að hafa ætlað að verða rithöfundur, en langt sagnfræðinám er góð þjálfun í skriftum. Það vildi til, var algjör tilviljun, að ég var beðin um að skrifa fyrstu þrjár bækurnar.


Ég á kollega Einari Laxness að þakka að Cand Mag ritgerð mín um búskap í Reykjavík kom út. Hann var forseti Sögufélags og stýrði ritröðinni Safn til sögu Reykjavíkur af metnaði og sá að ritgerð mín passaði þar inn og varð bókin Sveitin við sundin. Þá sótti ég í fyrsta skipti um styrki í Launasjóð rithöfunda og Vísindasjóð. Sú bók varð til þess að ég var beðin að skrifa ævisögu Einars Ólafssonar bónda í Lækjarhvammi í Reykjavík Frá Halamiðum á Hagatorg. Sem ég sat og skrifaði hana í Framleiðsluráði landbúnaðarins klappaði Sigurður Líndal frá Lækjamóti á vinstri öxl mína og spurði „viltu ekki skrifa um forföður minn Snorra á Húsafelli?“ Þannig kom þriðja bókin mín til sögu, Snorri á Húsafelli. Hún var tilnefnd til fyrstu Íslensku bókmenntaverðlaunanna og þá var ég komin á kortið. Áttaði mig á að ég mætti teljast nýtur höfundur sagnfræðibóka og ævisagna. Megas hjálpaði mér svo yfir á akur skáldskaparins þegar við skrifuðum barnævisögu hans saman, Sól í Norðurmýri.Textinn þinn flæðir milli ólíkra bókmenntagreina, ljóðrænn, skáldlegur og fræðilegur. Er það með ráðum gert?


List er að bæta einhverju við skynjun manna? Þurr og hávísindaleg sagnfræði er kennd við þýskan skóla sem þakkaður er sagnfræðingnum Leopold von Ranke, er vildi auka virðingu fagsins með því að hafa sögulegan texta sem líkastan orðfæri raunvísinda. Ég var svo heppin að taka ensku sem aukagrein með sagnfræðinni til BA prófs, og þar las maður vel skrifaðar allt að því skemmtilegar fræðibækur, í fræðaheimi enskrar tungu er sem sagt afslappaðri stílhefð en í Ranke skólanum. Vel skrifuð bók rýrir ekki fræðilegt gildi þeirra hugvísinda sem hún tilreiðir, um það sér vandað tilvísanakerfi. Í Snorra á Húsafelli klæddi ég söguhetju mína samkvæmt heimildum fatasögu og lýsti landi og veðri, án þess að fara út fyrir ramma sagnfræðilegs sannleika. Fólk ruglaðist og hélt að skáldlegur stíll til að létta og sviðsetja gerði bókina að skáldskap. Upplagt er að nota stílbragðið „það gæti verið að hann hafi hugsað þetta“, til að koma að kenningu. Þannig má fara í fantasíuleik út fyrir ramma fastra heimilda, sem eru jafnframt skýrt ræddar og skráðar.Nú teiknar þú og málar myndir og blandar þessum tveimur gerðum sköpunar saman. Sjá má myndir þínar í sumum bókunum og texti er auðvitað líka myndir. Finnst þér eitthvað líkt við þessa sköpun?


„Ég veit hvað kveikti í mér sem teiknara, annað en skólinn. Þriggja ára átti ég tvö yngri systkini þannig að ég límdi mig á pabba eins og ég mögulega gat. Einhvern tímann leyfði hann mér að fara með í vinnu hans efst í gamla flugturninum, sem var eins og turninn í Kardemommubænum. Þar uppi var fullt af sætum flugumferðarkörlum og lúxus pappír ... heil blokk og blýantar. Stressuð og skrítin eftir svartar og kuldalegar steintröppur fraus ég í því að teikna karlana. Þetta voru kjánamyndir smábarns auðvitað, en þeir urðu svo glaðir að ég hlýt að hafa hugsað: „hah, enn ein aðferð til að fá ást.“ Með því að geta eitthvað og fá hrós svalar maður ástsýki, sem verður vanabindandi.“ Segir Þórunn og hlær.Mynd eftir Þórunni.

Finnst þér líkt að skrifa og gera myndlist?


„Nei það er allt annað. Eru þetta ekki ólíkir staðir í heilanum?“Fyrst þú lýsir því að hafa hæfileika sem ástsýki, [Þórunn skýtur inn í „að rækta hæfileika. Af því að maður hefur aldrei hæfileika, maður ræktar eitthvað, einhverja getu“], en það að skrifa, færðu eitthvað út úr því sjálf líka?


„Hugljómanir, alveg bling bling. Það er þetta hérna“ segir Þórunn, bendir á gagnaugað og bætir við „steríóið í gagnaugunum. Stundum hverfur maður heilan dag. Þá er eins og heilinn skrifi eða teikni sjálfur, maður rankar við sér úr einhverjum trans, þetta er hvorttveggja trans.“En er þetta þá þörf, eða ertu að gera þetta vegna þess að þú þarft þess?


„Ég er algjör kjáni, óhræddi drengurinn og þykist geta allt. Ég skrifaði lista yfir sýslurnar í mér. Matthías Jochumsson sagði að það væru margar sýslur í manni. Ofurhuginn Þórunn, er það ekki Ísafjarðarsýsla? Ég man það ekki. Hún tekur að sér verkefni og þorir öllu, eins og að skrifa sögu Matthíasar sem bæði Einar Kvaran og Sigurður Nordal höfðu gefist upp á. Þessi Þórunn tekur að sér einhvern skollann og deyr frekar en að klára ekki. Þá náttúrulega bara gerir maður það sem fyrir liggur. Það er mjög gott kerfi á Íslandi að sjóðir úthluta bara launum í eitt ár, þannig er okkur alltaf haldið á nálum. Við getum ekki orðið seníl eða slakað á og maður bara venst þessu.“Þú ert einstaklega afkastamikill höfundur.


„En ég er samt löt. Ég er með ógeðslega góða einbeitingu.“Skrifarðu á hverjum degi?


„Nei. Það verður varla alla virka daga vikunnar. Og það er eiginlega aldrei nema fjóra, fimm tíma. Þetta segja eiginlega allir sem skrifa og það þarf enginn að hafa samviskubit út af því. Ef maður er í skapandi gír, pússun texta tekur minna á. Svo finn ég alltaf þegar það kemur svona dssssss ... svona hiti í heilann þegar hann getur ekki meir. Soðinn. En vinni maður næstum alla daga klárast þetta á endanum, jafnvel þótt það taki fimm ár, eins og Matthías. Þeir sem geta ekki klárað verk eiga ægilega bágt. Einn sveitarstjóri sagði mér að hann hefði alltaf verið með endalausa ókláraða bunka á borði sínu þar til hann fór til læknis sem gaf honum eina pillu á dag ... og síðan lauk hann alltaf strax öllum sínum verkefnum. Slúxið hvarf. Endilega segið fólki frá þessu sem er að vandræðast með að ljúka áföngum.“Áttu þér einhverjar lífsreglur?


„Sofa – hugleiða – sprikla ... nokkurn veginn eitthvað svona. Elska en standa samt á mínu. Ég setti þetta saman nú í sumar – það fer því betur að standa sem vísukorn:


Kjörþögli er snilld.

Settu þó aldrei punkt

þar sem samviskan segir þér

að hafa kommu.Hvað ertu búin að vera að fást við undanfarið?


Ég er nýbúin að klára bók sem er að koma út fyrir jólin. Hún heitir Bærinn brennur. Síðasta aftaka á Íslandi og fjallar um sögu Natans Ketilssonar. Á 19. öld skrifuðu menn upp munnmælasögur um morðin á Illugastöðum og Eggert minn heitinn, þá ellefu ára gamall, las útgáfu Brynjólfs frá Njúpi af sögunni þar sem hann segir að forfaðir Eggerts, Guðmundur Ketilsson, hafi boðist til þess að verða böðull morðingja Natans bróður síns. Það vill enginn gerast böðull, það er fyrirlitið í öllum heimshlutum, rakkarapakk, eins og segir á sænsku. Björn Blöndal sýslumaður nuddaði Guðmundi til þess að sjá um aftökurnar og þjálfaði hann heima hjá sér, þurfti að ganga á eftir honum, en erfitt var að ganga gegn vilja yfirvalds heillrar sýslu. Í blóði látins eiginmanns og fjölskyldu hans lifði sár eftir þessa kjaftasögu. Guðmundur Ketilsson var sómabóndi, fékk verðlaun konungs fyrir æðavarp og þjáðist örugglega ævilangt af minningum þessarar ógeðslegu aftöku.Var þá hvatinn að því að skrifa þessa bók að segja réttu söguna af máli Natans?


„Já. Maður verður að hafa ástríðu, ég fyllist verndarþörf þegar gott fólk er nítt niður. Það hefur gerst áður. Ég lenti í því að skrifa Kristnisögu fyrir Alþingi af því ég var blönk og við þau skrif áttaði ég mig á því hve orðspor Matthíasar Jochumssonar hafði verið skælt.


Halldór Laxness var unga skáldið sem þoldi ekki gamla risann Matthías og skrifaði niðrandi texta um hann, sem fóru um allt samfélagið. Menn fóru að bera skít á flottan þjóðsöng með ótrúlega metafýsík í miðerindinu. Þá vall fram svipuð reiði og tilheyrandi ástríða í mér. Ef einhver sem mér þykir vænt um er útbýaður stekk ég fram eins og ofurhetja, þó ég sé það alls ekki, og kem til bjargar.“Þannig að réttlætiskenndin er gjarnan hvatinn að skrifum þínum?


„Það er mín reynsla. Eða þörfin fyrir að ráðast gegn illri bannhelgi, sem meiðir fólk almennt, því að mér er annt um allra hag og elska alla þegar hjartað slær rétt. Útgefandi minn kallaði einu sinni eftir skáldsögu hjá mér, hvötin kom í það skipti ekki frá sjálfri mér, en ég lét þetta eftir honum, alltaf hlýðin því það var mér kennt lítilli. Næmur gagnrýnandi sagði þá í ritdómi: „það er eins og hún hafi ekki þurft að skrifa þessa bók“. Slíkt skín í gegn.


Eggert hafði safnað miklu efni til sögu Natans og skrifaði sjálfur greinar um efnið. Hann orðaði það við mig rétt áður en hann dó að ég skrifaði bók upp úr þessu fína heimildaefni fyrir alþýðu. Hann hafði borgað Gunnari Erni Hannessyni, einum af vörðum þjóðskjala, fyrir að skrifa upp fyrir sig skjöl eins og dómabók Blöndals sýslumanns. Blöndal hélt 28 löng yfirheyrsluþing, dómþing í héraði, allt var þar skrifað og vottað, hann yfirheyrði alla málinu viðkomandi, dróg meira að segja fram karaktervitni um morðingjana sem börn. Ekki hefur verið greiður aðgangur að frumskjölum sögunnar því að hún gerist fyrir leturbreytingu nútíma skriftar. Það er hausverkur að lesa texta frá fyrri hluta nítjándu aldar, kostar mikla yfirlegu og maður er aldrei öruggur. Efniviðurinn var það góður að mér var ljúft að verða við bón lífsástar minnar með því að skrifa Bærinn brennur. Síðasta aftaka á Íslandi. Segja má að ég sé að hreinsa og hlýða draugnum góða, eiginmanni mínum, þótt ég trúi ekki á drauga.“Dregurðu upp einhverja aðra mynd af persónunum en áður hefur verið gert. Ertu að skoða aðrar bækur um efnið, t.d. Náðarstund? Þú sagðist vera að afbyggja flökkusögur…


„Ég las þær flökkusögur sem skáldsögurnar byggja á. Ég nenni ekki að lesa skáldsögur sem byggja á flökkusögunum, það er bara til að ergja mig. Með því að nota þjóðskjöl sem voru skrifuð í samtíma sögunnar fer maður eins nálægt því og hægt er að sjá hvað gerðist. Þetta er dálítið eins og að ganga á steinum yfir mýri, víða kviksyndi undir fótum og svikular myndir í kring.


Í yfirheyrslum fullyrti fólk sem þekkti Agnesi litla að þessi ófríði niðursetningur hafi þá strax verið dýraníðingur, þjófótt og vond. Það er henni til afbötunar sem morðingja að hún fékk lítið gott í nesti frá tilverunni. Ég spegla þjóðskjöl og kjaftasögur saman, afbyggi greinilega lygi, en hið vafasama legg ég í kjöltu lesandans svo að hann meti sjálfur. Það er í skriftum eins og mörgu að maður er langt fram á ævi að ná öruggu valdi á faginu.“Í nýju bókinni ertu að vinna með sögulegt efni eins og þú hefur áður gert, en hvað finnst þér um sögulegu skáldsöguna sem bókmenntagrein?


„Ég hef sem sagnfræðingur óbeit á lygi um lifandi fólk, þótt það sé dáið. Níð og fjölmæli voru í okkar gömlu heiðnu hefð dæmd hart. Sá sem laskar mannorð var óalandi og óferjandi. Á síðustu öld barst þessi tíska svo hingað, að skrifa bull um sögulegar persónur. Halldór Laxness fór að gera þetta, útskeit háðuglega lifandi fólk í Íslandsklukkunni, sem er dásamleg bók því án hennar hefðu Íslendingar síðustu aldar varla haft neina hugmynd um 18. öldina. Fyrir sagnfræðing er lygi um lifandi man/mann ekki ósvipuð sársauka rangrar sjúkdómsgreiningar í andvöku læknis.


Vér sagnfræðingar eigum líka erfitt með að lesa sögulegan skáldskap, þótt um skáldað fólk sé, viti höfundur lítið sem ekkert um tímabilið. Þá veður textinn í tímaskekkjum og villum. Menn halda gjarnan að líf langafa og langömmu hafi verið eins og á miðöldum, en samfélagið er alltaf að breytast, það breytist mikið á hverri einustu öld.“Þú hefur skrifað um eigin forfeður; bókin Stúlka með fingur byggir að einhverju leyti á ævi ömmu þinnar, hvernig komu þau skrif til?


„Þetta er fantasía um ömmu mína, Þórunni Elínu Jónsdóttur, sem ég vissi eiginlega ekkert um. Ég rannsakaði og skrifaði bók um landsmálablöðin sjö Horfinn heimur. Árið 1900 í nærmynd og þá féll fínt efni til, allskonar rómantískt smælki eins og kona sem fannst í snjóskriðu með einn fingur upp úr, og unaðslegt málfar sem var í gangi á þessum tíma. Þannig varð hugmyndin til, ég fann að ég ætti stöff í skáldskap um aldamótin.“Stúlka með fingur var skilgreind sem söguleg skáldsaga; ekki satt?


Hún er það og ég breytti nafninu, Þórunn, í Unni. Amma lét Erlu Þórdísi Jónsdóttur móður mína skrifa um bernsku sína í Reykjavík bókina Bernska í byrjun aldar, þegar hún var kornung móðir. Þar breyttu þær nafninu Þórunni í Unni og þar með var þessi minningabók orðin skáldskapur. Ég hafði þessa sætu bók sem grunn. Þannig að þetta var í raun og veru fantasía um ömmu mína, þroskasaga og söguleg skáldsaga.


Seinna þegar ég fór að skrifa Stúlku með maga um móður mína skoðaði ég raunverulegar heimildir, bréf fjölskyldunnar sem vörpuðu nýju ljósi á margt í sögu ömmu. Stúlka með maga er skáldævisaga. Mamma var fyrsti maðurinn sem vildi ekki hætta óléttur í latínuskólanum. „Þar fór gott í grautarpottinn“ sagði Pálmi rektor, „ég ætla ekki að hætta“ sagði hún. Þetta var svo sterk sena að í raun varð hún kveikja bókar. Til að gera þrennu og bæta minni eigin þroskasögu við þurfti ég líkamspart með stúlku orðinu. Leysti málið með því að ég var með stærsta hausinn í MH sem stúdent – Stúlka með höfuð. Svo er ég náttúrulega mikill höfuðbúi = afburðargreind! Hjálp, ég er komin út í sjálfshól! Til að vinna gegn þeim þróunarsögulega farangri að konur tali sig niður, er gott að við tökum okkur tímabil í því að vera afar ánægðar með okkur, ljóta orðið yfir það er að vera montin.“ Segir Þórunn og skellihlær.Þú kallar Stúlku með fingur sem sagt sögulega skáldsögu en Stúlku með maga og Stúlku með höfuð skáldævisögur?


„Já, til þess að viðurkenna að maður man ekki allt rétt. Merkimiði skáldskapar í undirtitli er þannig viss vörn.“Finnst þér þá það sem þú kallar skáldævisaga nær raunveruleikanum heldur en söguleg skáldsaga, eða hver er munurinn fyrir þér?


„Ég átti engar góðar heimildir í söguna af Þórunni ömmu, kunni bara útlínur og stöku goðsögur um hana og hafði nokkuð af bernskuminningum. Því var ekkert í stöðunni annað en að breyta nafni og gera bókina að skáldsögu. Annað mál var með ritaðar heimildir og nærminni í hinum stúlkubókunum. Svo er það að hið draumkennda og draumraunsagan er viss sannleikur. Sumt er áþreifanlegt og annað er huglægt og þó afar raunverulegt. Draumur og skáldskapur svífa, sannleikurinn er grjótharður. Ég veit það ekki, kannski er ég nú farin að bulla - til þess er ég; er það ekki?“


Fannst þér vera munur á að skrifa um eigin ævi og um ævi mömmu þinnar?


„Skemmtilegust af öllu var Stúlka með maga þegar ég fór í bréfasafn fjölskyldunnar og ég ráðlegg öllum að gera það. Það er ekkert eins skemmtilegt og að skoða þessar mýtur sem foreldrar manns og afar og ömmur eru. Þær fyllast af lífi sendibréfa og það var ótrúlega gott að lesa þau. Maður flettir ofan af ótrúlegum leyndardómum eins og sýfilis. Að þekkja ekki nánustu áa er eins og að vera tré og finna ekki ræturnar, allt í einu fann ég allar þessar rætur, ég var ekki komin af jafnmiklu hyski og ég hafði haldið.“ Segir Þórunn kímin. „Það skýrir sjálfstraust mitt, geta forfeðranna og stolt þeirra.“Hvað fannst fjölskyldunni þinni um skáldævisögurnar?


„Allir glaðir. Hún er jafn saklaus og vitlaus og ég, fjölskyldan mín.“


Þórunn segir okkur að konur hafi verið hissa á því hvað Eggert gladdist þegar hún gaf út bækur á undan honum. Henni hefði fundist það svo sjálfsagt og Eggerti einnig.


„Ég fattaði ekki fyrr en hann var dáinn hversu mikið sjálfstraust bjó að baki sálrænum stuðningi hans við mig sem konu í karlafagi. Hann var einskonar einkabarn móður og fósturföður, tilbeðinn frá blautu barnsbeini án þess að þola það áfall sem yngra systkini er. Það er eiginlega best að horfa á tré til að skilja þetta með þörfina fyrir ástina eða ljósið. Þau laufgast ekki fyllilega né greinast nema þau fái sól úr öllum áttum. Tré eru stöðugar og því auðlesanlegar verur. Við þurfum öll ást. Annað sem gott er að muna er að ást er í eðli sínu gagnkvæm.“Við látum þetta fallega heilræði vera lokaorðin og þökkum Þórunni fyrir fróðlegt og skemmtilegt spjall um lífið og tilveruna, skáldskapinn og listina.