SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir29. desember 2020

Illverk á illverk ofan

Inga Kristjáns, eða Ingibjörg Katrín Kristjánsdóttir eins og hún heitir fullu nafni, hefur haldið úti hlaðvarpinu Illverk þar sem hún kafar ofan í ýmis morðmál. Fyrsti þátturinn fór í loftið 25. febrúar árið 2019 og eru þættirnir orðnir 86 talsins. Nýlega fór Inga einnig að semja hlaðvarpsþætti fyrir yngri hlustendur sem nefnist Illverk krakkar og er búið að gera einn slíkan þátt aðgengilegan.

Samfara þáttagerðinni hóf Inga að skrifa glæpasögu sem kom út fyrir skemmstu. Sagan er samnefnd þáttunum og heitir Illverk. Inga segir, í viðtali við K100, að það hafi alltaf verið draumur hennar að verða rithöfundur og allt frá barnsaldri hafi hún verið sískrifandi sögur, ljóð og leikrit. Inga segir að hugmyndin að skáldsögunni hafi vaknað nokkrum mánuðum áður en hún hófst handa en það hafi einungis tekið hana rúmar sex vikur að skrifa bókina.

Í fyrrnefndu viðtali segist Inga nú þegar byrjuð á næstu bók og auk þess sé hún að vinna í tveimur spilum sem tengjast hlaðvarpsþáttunum.

Inga heldur úti hópi á Facebook um illverkin en þar er hún með yfir 5000 fylgjendur. Hópinn má nálgast hér.