- Guðrún Steinþórsdóttir
Hver fléttar grasið, eldinn og vatnið?

Ljóð vikunnar er eftir Guðrúnu Hannesdóttur og nefnist „spurn“. Guðrún hefur sent frá sér átta ljóðabækur en „spurn“ birtist í bókinni Skin sem kom út árið 2016.
spurn
hver fléttar grasið sem vaxið hefur draumum okkar yfir höfuð
hver fléttar eldinn vatnið í læknum sandinn á ströndinni sjóndeildarhringana
er það vindurinn fingralipri eða lævísa ljósið?
í djúpum dal tímans virðist allt deginum ljósara
allar spurningar löngu fallnar í glóandi stafi