• Helga Jónsdóttir

Hvað gerist þegar gömul kona deyr?


Steinunn Sigurðardóttir á ljóð dagsins en samkvæmt ljóðmælanda þess deyr heill alheimur þegar gömul kona deyr. Ljóðið birtist í ljóðabókinni Hugástir (1999) og er þriðja ljóðið í fyrsta hluta bókarinnar sem ber heitið „Nokkrar gusur um dauðann og fleira.“ Soffía Auður Birgisdóttir skrifaði ritdóm um Hugástir þegar ljóðabókin kom út en hann má nálgast hér.III


Þegar fólk deyr þá deyr ekki bara fólk

með því deyr alheimur

af háttalagi, vinnulagi, raddblæ, visku, fávisku.

Sérstakur hlátur deyr og bros á sérstökum hraða.


Fataskápurinn splundrast

líka það er óbætanlegt,

Því engir tveir eru eins.


Hjá þeim sem eru ekki duglegir að henda

má lesa sögu sálarinnar af herðatrjánum.


Þegar manneskja deyr þá deyr með henni heil hárgreiðsla


og ef það er gömul kona sem dó þá deyr líka kvenveski lúið

og handtökin við að opna veskið og róta í því.