• Ritstjórn

Hugvísindaþing 11. og 12. mars


Föstudaginn 11. mars og laugardaginn 12. mars verður haldið Hugvísindaþing Háskóla Íslands. Það er Hugvísindastofnun HÍ sem býður til þingsins og eins og alltaf eru margar málstofur og fjölbreyttir fyrirlestrar á dagskrá þingsins.


Tvær málstofur tengjast bókmenntum kvenna:DÝPIÐ ER ÓKANNAÐ. Um skáldskap Þóru Jónsdóttur

11. mars, stofu 202 í Odda, kl. 13-16


Þóra Jónsdóttir, f. 1925, er eitt athyglisverðasta ljóðskáld sinnar kynslóðar og hefur sent frá sér þrettán ljóðabækur frá árinu 1973, auk þess sem safn ljóða hennar kom út árið 2005 undir titlinum Landið í brjóstinu. Í málstofunni verður rýnt í ljóðlist Þóru út frá ólíkum sjónarhornum.


Fyrirlestra flytja Helga Kress, Arnór Ingi Hjartarson, Soffía Auður Birgisdóttir, Ástráður Eysteinsson og Magnús Sigurðsson. Sjá lýsingar á fyrirlestrum hér.SJÁLFSÆVISAGA "FÁVITA". Um sjálfsævisöguhandrit Bjargeyjar Kristjánsdóttur

11. mars, stofu 301 Árnagarði, kl. 15-17


Vorið 2022 kemur út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar verk sem Bjargey Kristjánsdóttir, sem vanalega gekk undir nafninu Bíbí í Berlín, ritaði. Bíbí var fædd á kotbýlinu Berlín rétt fyrir utan Hofsós árið 1927 og var úrskurðuð fljótlega á fyrsta ári „fáviti“ eins og það var nefnt á fyrri hluta 20. aldar. Eftir lát móður sinnar, þegar Bíbí var um þrítugt, var hún flutt gegn vilja sínum á elliheimilið á Blöndósi. Þar dvaldi hún í tæp 20 ár eða þar til að hún flutti inn í þorpið þar sem hún bjó í skjóli vina um hríð en endaði ævi sína á elliheimilinu þar sem hún lést árið 1999.

Bíbí lét eftir sig 120 þúsund orða sjálfsævisöguhandrit (meðalstærð bókarhandrita er 90 þúsund orð) sem hún hafði unnið að mestu í einrúmi, hélt leyndu fyrir fjölskyldu sinni og samferðarfólki og fáir vissu um tilvist þess. Viðfangsefni þessarar málstofu verður handritið sjálft; hvers konar verk er þessi sjálfsævisaga, hvers konar rannsókn býður hún upp á á högum þroskaskertrar manneskju á 20. öld og hverjir eru efnisþættirnir sem þar er bryddað upp á? Bókin kemur út með ítarlegum inngangi Guðrúnar Valgerðar Stefánsdóttur prófessors í fötlunarfræði við Menntavísindasvið. Að verkinu standa auk hennar þau Sólveig Ólafsdóttir doktorsnemi í sagnfræði og Sigurður Gylfi Magnússon prófessor í sagnfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands en þau þrjú fengu þriggja ára verkefnisstyrk frá Rannís árið 2021 til að rannsaka sögu Bíbíar.

Fyrirlestra flytja Sigurður Gylfi Magnússon, Guðrún Valgerður Stefánsdóttir, Sólveig Ólafsdóttir og Atli Þór Kristinsson. Sjá lýsingar á fyrirlestrum hér.


Hugvísindaþingið er öllum opið og við hvetjum alla til að kynna sér dagskrá þingsins og mæta á fyrirlestra.