• Helga Jónsdóttir

„Hjarta bókmenntanna er uppreisn“ - Elif Shafak verðlaunuð á Bókmenntahátíð


Á nýafstaðinni Bókmenntahátíð voru alþjóðleg verðlaun Halldórs Laxness veitt í annað sinn. Þau voru fyrst afhent árið 2019 þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu nóbelskáldsins og hlaut Ian McEwan þau í það skipti. Í ár runnu verðlaunin til bresk-tyrkneska skáldsins Elif Shafak. Shafak, sem er í senn fræðikona með doktorspróf í stjórnmálafræði og bókmenntafræði, á að baki glæstan rithöfundaferil. Hún hefur sent frá sér 19 bækur, þar af 12 skáldsögur, og fyrir þær hefur hún vakið verðskuldaða athygli. Nýjasta skáldsaga hennar 10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undarlegu veröld var til að mynda tilnefnd til Booker- og RSL Ondaatje-verðlaunanna. Bókin fjallar um vændiskonu í Istanbúl og kom út í íslenskri þýðingu Nönnu Þórsdóttur fyrr á þessu ári. Þá hefur Ingunn Ásdísardóttir áður þýtt skáldsöguna Heiður (2014) eftir Shafak.


Í ár sátu Stella Soffía Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík, Eliza Reid, forsetafrú, og Ian McEwan í dómnefnd verðlaunanna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, afhenti verðlaunin og við það tilefni las hún umsögn McEwans um Shafak. Í henni segir meðal annars:


Elif Shafak er einstök og kraftmikil rödd í bókmenntaheiminum. Einstök þar sem hún sameinar siðferðisleg og pólitísk öfl með fallegum prósa og hefur mikilvægan skilning á flóknu eðli frásagnarlistarinnar. Hún sýður saman hið ofur-raunverulega (e. hyper-real) og raunveruleikann á snjallan hátt eins og sjá má í hennar frábæru skáldsögu 10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undarlegu veröld. [] Bækur hennar, sem eru upplýsandi og sannar, bera merki um djúpa vitsmuni og hún er einstaklega næm á mannshjartað. Af hugrekki fær hún okkur til að horfast í augu við skeytingarleysi um óréttlæti í samfélaginu og illskuna sem því fylgir. 


Elif Shafak er baráttukona og, líkt og umsögn McEwans ber með sér, nýtir hún skáldskapinn til að fjalla um ýmis mannréttindamál og til að ljá hópum á jaðri samfélagsins rödd. Í ræðu sinni við viðtöku verðlaunanna lýsti hún skáldskapnum sem mikilvægu mótvægi við firringu í samfélaginu og afmennskun (e. dehumanisation) fólks. Í því samhengi vék Shafak orðum sínum að óvenjulegum stað í Istanbúl sem veitti henni innblástur við skrif nýjustu skáldsögu hennar, stað sem nefnist grafreitur hinna umkomulausu (e. cemetery of the companionless). Shafak fór að venja komur sínar þangað og leita uppi sögur fólksins sem hafði verið grafið þar einsamalt og án athafnar. Hún komst að því að margir hefðu tilheyrt lgbtq+ samfélaginu en einnig voru þar börn sem höfðu verið yfirgefin, fólk sem lést fyrir eigin hendi, fólk sem stundaði kynlífsvinnu og fólk á flótta. Leiðin eru aðeins merkt með númerum og, eins og Shafak lýsir, hafa einstaklingarnir þannig verið smættaðir niður í tölu og fyrir vikið misst mannlega eiginleika sína. Shafak leggur áherslu á að með bókmenntum megi snúa þessu ferli afmennskunar við, að með því að draga fram í dagsljósið sögu fólks sem hafnað hefur verið af samfélaginu sé unnt að efla samlíðan með því. Þannig geti sögur sameinað og aukið skilning en Shafak fullyrðir að hjarta bókmenntanna sé mótspyrna og uppreisn.


Skáld.is óskar þessari hæfileikaríku og kraftmiklu skáldkonu innilega til hamingju með verðlaunin!Hér má horfa á upptöku af verðlaunaafhendingunni.


Einnig er vert að nefna að brot úr viðtali Jórunnar Sigurðardóttur við Shafak var flutt í Víðsjá en viðtalið verður flutt í heild sinni í þætti Jórunnar, Orðum um bækur, á Rás 1.