• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Hjartað er nánast heilt


Ljóðabók eftir Soffíu Bjarnadóttur (1975), Ég er hér, kom út 2017. Áður hefur Soffía sent frá sér ljóðabókina Hunangsveiði (2019, sjá hér) Beinhvíta skurn (2015) og skáldsöguna Segulskekkju (2015, sjá hér). Ég er hér kveikir hugrenningatengsl við ljóðabókina, Þegar þú ert ekki (1982) eftir Guðrúnu Svövu Svavarsdóttur sem lýsir ferlinu frá örvæntingu vegna forsmáðrar ástar til sáttar og nýs upphafs, líkt og ljóð Soffíu gera þrjátíu og fimm árum síðar.


Tjáning og hreinskilni

Bók Guðrúnar Svövu vakti athygli á sínum tíma fyrir einlæga tilfinningatjáningu og kjarkaða hreinskilni auk þess sem það fór ekki dult, eins og sést í ritdómum og viðtölum, að ljóðin snerust um skilnað Guðrúnar Svövu og Þorsteins frá Hamri og hreinskilni. Sjálf sagði Guðrún Svava um bókina í viðtali í Helgarpóstinum að ljóðagerðin hafi verið tilfinningaleg útrás fyrir hana og hún hafi verið að „yrkja sig frá angri“.


Rjúkandi rúst

Að yrkja sig frá angri er sígilt þema sem birtist hvarvetna í menningarsögunni en er alltaf nýtt fyrir hverjum og einum. Nægir að nefna verk Vatnsenda-Rósu, Bjarkar eða Béyoncé sem dæmi um slíka orðræðu ástarinnar og tilfinningalegt flæði í skáldskap. Ljóð Soffíu Bjarnadóttur fjalla um angrið og um þessa ást sem manni helst svo illa á, sem kviknar svo ljúflega en kulnar síðan og skilur eftir sig rjúkandi rúst.


Á titilsíðu ljóðabókar Soffíu er býsna löng skilgreining á orðinu „Bardo“, sem er sá staður sem sálin ferðast á milli dauða og endurfæðingar og felur í senn í sér óvissu og endalausa möguleika samkvæmt tíbetskri lífsspeki. Þetta er staður sem við höfum öll verið á; samastaður þar sem er hægt að skríða í skjól þegar á móti blæs; þegar ástarsorgin nístir hvað sárast.


Engin tæpitunga

Á meðan skáldskapurinn læknaði angur Guðrúnar Svövu forðum, lækna ljóð Soffíu ekki neitt því það er ekki nein lækning til (60). Guðrún Svava orti ljóst og skýrt um sínar ástarraunir en ljóðheimur Soffíu er sannarlega torræður og krókóttur. Strax í upphafi er dregin upp mynd af taugakerfi sem hangir í einni flókabendu um borgina Kaoz, rafmagnið fer af í sífellu og hundar gelta, tónninn er sleginn fyrir óreiðu og stríðsástand. Þetta er undirstrikað með myndum, endurtekningum og táknum eins og sári, blóði og beinum, myrkri og skuggum. Og það er engin tæpitunga töluð:


„Ástin er brútal skítug og falleg brundandi þoka yfir þvottahúsum heims ríður ídealisma í rassgat gott á allar hugmyndirnar þær eru hálar renndu þér niður slepptu takinu fegraðu sóðaskapinn hér mætist myrkur og ljós þú tekur mig alla sættu þig við staðreyndir þú ert ofurseldur ég sé það ég sé þig.“ (16)


Ljóðmælandinn hefur gefið og tekið, bráðnað af ást og tærist síðan upp. Myndmálið er líkamlegt og kvenlegt; hvítkölkuð bein og kvikrauðar æðar eru strengdar til himins á þvottasnúru (45), geirvörtur og tittlingur eru skýr í minninu; hár vex, magasýrur malla og blóð ólgar og rennur í stríðum straumi.


Guðleg nánd?

Ástin er eins og hún hafi farið í gegnum hakkavél, hún er umbreytt, tætt og óþekkjanleg. Hún er „mess“, hún er lykt, hún er slím og brundur. Hún er sár sem verður til við flókna skurðaðgerð og ekkert verður aftur eins. Skírskotað er til síðusárs eins og þess sem Jesú fékk forðum en víða eru klassískar vísanir í Biblíuna, t.d. frasar eins og „ég boða yður mikinn fögnuð“ og „Mig þyrstir“ sem kemur endurtekið fyrir og tengist grundvallarþrám og þúsund ára gömlum sögnum. Stormasamt ástarsambandið hefst að nýju á föstudaginn langa og innsiglishringur úr Ljóðaljóðum Salómons markar síðan endalok þess. Soffía sækir innblásturinn víða en það er einhver ríkjandi þörf á guðlegri nánd.


„ég er hér fyrir þig fyrir guð

ég er hér“ (29)


Víða er hægt að grípa niður og dvelja við myndir og orð í ljóðum Soffíu, t.d. þegar húðin er myndhverfð sem kafarabúningur, blóð brýst út, myndar slóða og rauðan þráð sem verður að rauðu tvinnakefli; hárið vex niður eftir öllum líkamanum og verður veiðihár og síðan þéttofin hárskurn sem umlykur mann. Áhrifarík mynd af nekt, einmanakennd og varnarleysi (36-37).

Að fálma sig í gegnum tákn og myndir Soffíu er ekki auðvelt. Þau virðast ansi sundurleit við fyrstu sýn en eru tengd og samofin þegar að er gáð. Svartir steinar, tími og trjágreinar, þyrnigerði... og svo er einhver sem hvílir svo falleg í lokaðri kistu; er það ástin, ævintýrið, endurminningin? Ástarsambandið er heitt og innilegt þegar allt leikur í lyndi, viský er þambað og riðið útí eitt en það er stormasamt og það er eitthvað að. Slæmir fyrirboðar eru á stjái:


„Í nótt dreymdi mig aftur rottur þær átu fræ beint úr lófa mínum nörtuðu í gegnum sinar inn að beini

þessi eilífi brundur í svarthvítri fortíð

ég munda fallegasta vopnið það hættulegasta.“ (38)


Hjartað er nánast heilt

Ljóðabókinni er skipt í tvo hluta með tilvitnun í Black Lake af plötu Bjarkar, Vulnicura, en hún fjallar sömuleiðis um forsmáða ást og sársaukafullan skilnað (Björk kemur líka við sögu fyrstu ljóðabók Soffíu). Í seinni hluta er ástarsambandið búið, sárindin gerð upp, búið að segja öll reiðiorðin; ástmögurinn með arnarnefið er farinn með skyrtuermi flaksandi úr opinni ferðatösku; umskipti og hreinsun taka við. Búið að fara niður níu hringi helvítis, brenna og rísa upp aftur. Þessi hluti bókarinnar er samfelldari og heilsteyptari en sá fyrri, hér raðast tákn og myndir úr fyrri hluta fallega saman.


Það verður að nefna kolateikningar Sigtryggs Berg Sigmarssonar sem prýða bókina, þær eru riss eða krot, kaótískar og einfaldar í senn, og endurspegla algjörlega það hugarástand sem ríkir í ljóðunum (líkt og í bók Guðrúnar Svövu sem hún myndskreytti sjálf, síðasta myndin er af hönd sem er orðin heil).


Ég er hér, er einarður og kröftugur ljóðabálkur, um ást, sársauka og ummyndun á öllum tímum. Í bókarlok hefur vakning átt sér stað og endurfæðing orðið. Ljóðmælandi hefur gengið í gegnum helvíti en getur nú sleppt takinu á Bardo-inu og horft fram á frelsi og nýja möguleika. Líkt og í myndbandi Bjarkar við Black Lake þar sem hún gengur út úr helli í átt til nýrra tíma, er „dökkur dropahellir“ (66) fortíðar nú að baki, og hjartað er „nánast heilt. Nánast.“Greinin birtist fyrst í Víðsjá, á vef rúv.

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband