• Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir

Hin dularfulla Stella Blómkvist tekin tali


Sjónvarpsþættir byggðir á bókum Stellu hafa notið vinsælda

Næstum aldarfjórðungur er liðinn síðan Stella Blómkvist sendi frá sér sína fyrstu glæpasögu, Morðið í Stjórnarráðinu, en nýjasta bók hennar, Morðið við Huldukletta, kom út nú í vor. Nýjasta sagan er sú tólfta í ritröðinni um tálkvendið og lögfræðinginn Stellu sem berst ötullega fyrir réttlæti og leggur sitt að mörkum til að afhjúpa spillingu í samfélaginu.


Stella á stóran þátt í að móta íslenska glæpasagnahefð en fyrsta bók hennar kom út 1997 sama ár og Arnaldur Indriðason sendi frá sér sitt fyrsta verk. Á hispurslausan máta skrifar hún um tvíkynhneigð, samkynja ástir og kynlíf sem skipar henni jafnframt mikilvægan sess í hinsegin bókmenntasögu á Íslandi.


Stella er einn dularfyllsti höfundur landsins því hún skrifar undir dulnefni og þrátt fyrir að hafa verið starfandi skáldkona um árabil er enn á huldu hver er að baki höfundarnafninu. Eins og gefur að skilja gat hún ekki hitt okkur í eigin persónu en var tilbúin að veita okkur innsýn í sköpunarferlið og skáldskap sinn með hjálp tækninnar.

Hvað ertu búin að vera að bralla í sumar?

Ég hef haft meira en nóg að gera - fyrir utan auðvitað að forðast „kófið“ eins og nágrannar mínir og vinir. Enda margt á seyði hjá mér í sumar. Þannig kom tólfta sagan mín, Morðið við Huldukletta, út í byrjun maí og fékk góðar viðtökur í bókabúðunum. Elstu bækurnar mínar komu líka út sem hljóðbækur í flottum lestri Anitu Briem, og fleiri eru væntanlegar næstu mánuði. Svo er ég nánast daglega með tölvuna í fanginu að skrifa meira og meira um Stellu Blómkvist.Hvers vegna ákvaðstu á sínum tíma að skrifa glæpasögu?

Mig langaði fyrst til að skrifa alþjóðlega spennusögu, en hellti mér þess í stað í Morðið í Stjórnarráðinu, og þá ekki síst til að afhjúpa pólitíska og fjármálalega skúrka í undirheimum Reykjavíkur. En á þeim tíma voru íslenskar glæpasögur jafn sjaldgæfar og hvítir hrafnar. Ástæðan var einföld; útgefendur voru þá sammála um að það væri sóun á peningum að gefa út slíkar bækur, enginn myndi kaupa þær. En það dró samt ekkert úr áhuga mínum á að reyna.

Ég komst að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til að ná árangri á þessu sviði væri að búa til söguhetju sem væri allt öðruvísi en lesendur áttu að venjast. Ég pældi mikið í sérkennum persónunnar þar til Stella Blómkvist reis snögglega upp í huga mér í öllu sínu dásamlega veldi. Það var skratti skemmtilegt augnablik.

Í kjölfarið fór ég að þróa betur veröld Stellu Blómkvist, spillingarbælið Ísland þar sem fæst er eins og það sýnist vera á sléttu yfirborðinu. Og hóf síðan að skrifa fyrsta handrit sögunnar. Það tók mig tvö til þrjú ár, enda var ég líka á kafi í öðrum og óskyldum verkefnum hins daglega lífs.

Hvað er það sem heillar þig við sakamálasögur?

Ég hafði um þetta leyti lesið mikið af erlendum glæpasögum og njósnasögum og fannst þær sameina tvennt sem mér líkaði vel: Annars vegar að segja spennandi sögu, gjarnan með óvæntum endi. Hins vegar að draga fram í dagsljósið leynda skúrka, einstaklinga og stofnanir, sem líta á heiminn sem gullið tækifæri til að kúga aðra og græða á þeim sem minna mega sín. Sá lestur varð mér hvatning til að skrifa spennandi sögu um baráttu við spillingu og yfirgang í okkar eigin samfélagi.


Hvert sækir þú innblástur?

Stellubækurnar hafa frá upphafi verið beintengdar við nútímann. Skuggahliðar borgarlífsins eru fínn bakgrunnur fyrir spennandi atburðarás því hérna er fullt af krimmum og klámköllum, grimmum peningasugum og ósvífnum pólitíkusum, ofbeldismönnum og eiturlyfjasölum. Það er hægt að finna litríka skúrka út um allt. Þetta umhverfi er fínt efni fyrir skáldsögur sem gerast í nútímanum.

Að öðru leyti fæ ég innblástur úr mörgum áttum, þar á meðal við lestur frétta fjölmiðla, innlendra og erlendra, og lestur dóma í íslenskum sakamálum, en allt slíkt endurskapa ég og felli inn í veröld Stellu Blómkvist.

Persónuleg reynsla mín kom einnig að mjög góðu gagni því ég kynntist snemma pólitískri og fjármálalegri spillingu sem er fyrirferðarmikil í öllum Stellusögunum.


Ertu með fastar vinnuvenjur, skrifar þú til dæmis á hverjum degi?

Satt best að segja líður mér illa ef ég hef ekki náð að skrifa eitthvað að kvöldi dags, það skapar óþol hið innra. Stundum fann ég eingöngu tíma til að skrifa á kvöldin og um helgar og í sumarleyfum, en það breytti því ekki að ég reyndi að semja eitthvað á hverjum degi. Hin síðari ár hef ég minnkað við mig önnur störf og því haft meiri tíma til að skrifa og þá byrja ég oftast snemma morguns.


Geturðu lýst sköpunarferlinu? Ertu t.d. búin að ákveða sögufléttur bókanna þegar þú byrjar að skrifa eða þróast fléttan við skriftirnar?

Mér finnst gott að plana atburðarás ítarlega áður en ég fer í gang. Einnig að draga á blað helstu einkenni sögupersóna sem eiga að koma við sögu. Stundum er ég með alla söguna á hreinu í stórum dráttum frá upphafi.

Hins vegar kemur það fyrir annað slagið að ég geri veigamiklar breytingar í miðjum klíðum. Þá hefur mér einfaldlega dottið í hug betri og óvæntari framvinda atburða en í upphaflegu áætluninni. Það hefur jafnvel komið fyrir að ég hafi skipt um morðingja þegar ný saga er á lokametrunum, en það kostar auðvitað ýmsar breytingar á því sem áður var skrifað. Mér finnst alltaf gaman og spennandi þegar ritunin leiðir mig á óvæntar slóðir.

Það er algengt að glæpasagnahöfundar beini sjónum lesenda að ýmsum samfélagsmeinum í bókum sínum. Eru einhver skilaboð sem þú vilt koma á framfæri með sögunum um Stellu?

Spilling er kannski meiri og verri í sumum öðrum löndum en á Íslandi, en við höfum svo sannarlega meira en nóg fyrir okkur. Hérna er fullt af grimmum fjármálamönnum sem kunna að stela stórt, pólitíkusum sem svífast einskis til að ná sínu fram, hrottafengnum ofbeldismönnum og miskunnarlausum eiturlyfjasölum sem leiða aldrei hugann að örlögum fórnarlamba sinna. Sögurnar um Stellu gerast í þeim dapra dimma heimi sem þessir skúrkar hafa búið til í samfélagi okkar.

Í sögunum sýni ég fjölmörg dæmi um hversu illa er farið með konur á Íslandi, ekki síst innflytjendur. Einnig mörg dæmi um hvernig yfirstéttin í þjóðfélaginu, hvort sem það eru samviskulausir pólitíkusar, valdamiklir kerfiskallar eða ósvífnir gróðapungar, svífast einskis til að fá sitt fram jafnvel þótt það kosti líf eða limi eða lífshamingju þeirra sem verða fyrir barðinu á skúrkunum.

Skilaboð Stellu Blómkvist í bókunum eru kristaltær: Þú þarft að berjast af hörku gegn ofbeldi, yfirgangi og óréttlæti. Þú mátt aldrei gefast upp. Það er eiginlega hennar helsta mottó.Hvernig finnst þér glæpasagnaflóran hérlendis? Og finnst þér hún hafa breyst mikið síðan þú fórst að senda frá þér bækur? Ef já, hvernig?

Fyrsta Stellubókin kom út árið 1997 þegar útgefendum þótti almennt vonlaust að gefa út glæpasögur eftir íslenska höfunda. Arnaldur gaf líka út sína fyrstu glæpasögu á þessu sama ári. Í kjölfarið reis ný öld með gjörbreytt viðhorf; fyrst fengum við glæpasagnavor og svo glæpasagnasumar sem mér skilst að standi enn. Þessi flóra virðist mjög fjölbreytt, en ég get því miður ekki um það dæmt af eigin raun.Lestu mikið af glæpasögum? Og ef svo er; áttu þér uppáhalds höfunda?

Ég las mikið af glæpasögum og njósnasögum áður en ég fór að skrifa bækurnar um Stellu Blómkvist, en ekki hin síðari ár. Það er einna helst að ég endurlesi gamlar bækur sem mér líkaði við fyrr á árum, enda eru flestir eftirlætishöfundar mínir farnir yfir móðuna miklu eins og það heitir.


Áttu þér uppáhalds spæjara eða leynilögreglur í heimi skáldskaparins?

Ég sagði einu sinni í blaðaviðtali að Stella Blómkvist væri systirin sem Philip Marlowe eignaðist aldrei. Þannig vildi ég gefa til kynna að þessi söguhetja Raymond Chandlers væri ein af fyrirmyndum Stellu Blómkvist.


Hefurðu fengist við önnur form en glæpasöguna? Ef já, hefurðu hug á að gefa efnið út?

Já. Og já.


Hefurðu skrifað bækur undir öðru nafni? Og ef svo er hverslags bækur?

Já. Eðli málsins samkvæmt læt ég vera að svara síðari hluta spurningarinnar. Það bíður þess tíma þegar ég lýk við að semja ævisögu Stellu Blómkvist, en hugmyndin er að birta þá afhjúpunarbók í kjölfar síðustu Stellusögunnar.


Hvers vegna þessi leynd um raunverulegt höfundarnafn/nöfn?

Þegar ég ákvað að skrifa skáldsögu um söguhetjuna Stellu Blómkvist fannst mér liggja í augum uppi að hún ætti að fá að segja sögu sína sjálf í fyrstu persónu. Söguhetjan Stella er alfa og omega bókanna, hún ræður ferðinni frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu, og beinskeyttur og harðsoðinn frásagnarstíll var valinn vegna þess að hann er í samræmi við skapgerð Stellu. Hún sér, talar, hugsar og framkvæmir það sem gerist í sögunum. Þetta eru að öllu leyti hennar sögur. Af hverju þá ekki að gera hana líka að höfundi? Ég bjó til kápusíðu með þessum orðum: „Stella Blómkvist: Morðið í Stjórnarráðinu“ og fannst það fyndið og flott.

Þar við bættist að um það leyti sem ég var að byrja að semja fyrstu Stellusöguna voru bókmenntafræðingar hér á landi sem erlendis að tuða um að höfundurinn væri óþarfur. Þeir sögðu að höfundurinn væri dauður, það væri bókin sjálf sem skipti máli, ekkert annað. Mér fannst því bráðsnjallt að grípa þetta tækifæri til að henda boðskap þeirra á lofti og senda frá mér bók þar sem höfundurinn var algjörlega ósýnilegur.

Þessi nafnleynd hélt svo bara áfram þegar næsta bók birtist, enda ekkert sérstakt tilefni til að neyða annan höfund upp á Stellu Blómkvist.

Ertu byrjuð að skrifa næstu bók?

Já, þrettánda sagan er langt komin. En nafnið er auðvitað leyndó sem stendur.

Við þökkum Stellu kærlega fyrir viðtalið og hlökkum til að lesa þrettándu bókina hennar.