• Steinunn Inga Óttarsdóttir

„Hið rótgróna merki fátæktar og umkomuleysis“Bókaforlagið Angústúra réðst árið 2017 í endurútgáfu ævisögunnar Tvennir tímar. Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason (kom fyrst út 1949), síðustu bók Elínborgar Lárusdóttur sem var afkastamikill rithöfundur um miðja síðustu öld Útgáfan er vönduð og eiguleg, með orðskýringum, formála og eftirmála, orðskýringum og ljósmyndum úr einkasafni og er ómetanleg heimild um horfinn tíma og harða lífsbaráttu, ekki síst kvenna. Hætt er við að nútímafólk trúi varla að barn hafi þurft að þola þá meðferð sem Hólmfríður Margrét Björnsdóttir (1870-1948) fékk í uppvexti sínum í Skagafirði undir lok 20. aldar. En þetta var hlutskipti margra íslenskra barna og vinnukvenna fyrr á öldum.Byrjaði að vinna 5 ára

Ekki er mikið fjallað um tilfinningalíf, drauma og þrár í þessari ævisögu frekar en öðrum frá þessum tíma. En mikinn fróðleik er hér að finna um matargerð, híbýli og aðbúnað fólks og um félagslega stöðu töku- og fósturbarna en Hólmfríður var send til vandalausra aðeins fárra daga gömul. Hún var farin að sinna ýmsum verkum um 5 ára aldurinn, s.s. að prjóna, tæja ull og rífa hrís til eldiviðar. Átta ára varð hún að fara að vinna fyrir sér á kotbæ og voru henni þá falin verstu verkin, m.a. að bera vatn og mó, sópa og moka snjó. Föt sem hún fékk send þangað frá fósturmóður sinni fékk hún ekki afhent en börn húsbændanna voru klædd í þau og berfætt gekk hún sumrin löng. „Oft var Hólmfríður svo hungruð að hana sveið að innan... Oft var hún barin, og aldrei talað til hennar hlýtt orð og aldrei fannst þeim hjónum hún vinna nóg“ (46).


Í uppvextinum var hún jafnan vot í fætur og í skjóllausum görmum. Erfiðisvinna, veikindi og vannæring settu mark á heilsu litlu stúlkunnar, svo hún beið þess aldrei bætur (52). Hraktist hún á milli bæja við misjafnt atlæti, alls var hún á 12 bæjum fyrstu 19 ár ævi sinnar (155). Vinnuþrælkun var mikil og munaði verulega á kjörum karla og kvenna. Þótt allir ynnu mikið fengu karlar hærri laun (75 krónur á ári en konur 24). Þjónaði hver vinnustúlka einum karlmanni fyrir utan venjulegan vinnudag og átti að þvo af honum á sunnudögum (99). Það er frekar dulið í textanum hvað Hólmfríði sjálfri fannst um þennan ójöfnuð en hann er vissulega dreginn skýrt fram. En henni sárnaði að fá ekki að læra að skrifa og var hún orðin 16 ára áður en það varð.


Förukonur

Hólmfríður hefur haft næmt auga fyrir umhverfi sínu og segir m.a. skemmtilega frá nokkrum förukonum. Sumar voru útsjónarsamar og risu gegn stöðnuðu samfélagi, aðrar báru harm í brjósti eða áttu engan að. Átakanleg er frásögn af systkinunum Jakobi og Rannveigu á Minni-Brekku. Ljóst má vera að Jakob beitti systur sína miklu ofbeldi og vissu það allir. Þessi endurminning situr í Hólmfríði og hafði djúp áhrif á hana:


„Broslegt var að sjá þau saman í smiðjunni systkinin, hann í úlpunni, gyrtan reiptagli og berandi þrjá til fjóra hatta á höfði, hana í verstu görmum, svarta af sóti og skít, hokna í herðum og síhrædda, skotrandi hræðslulegum augunum upp á hinn mikla meistara og lesandi fyrirskipanir, þóknun eða vanþóknun úr hinum þóttalega svip hans. Svo mikið er víst, að hún vildi ekki styggja hann, enda má segja að allt líf hennar snerist um það, að reyna að gera honum til hæfis, létta undir með honum og vinna sem allra mest. En laun hennar urðu smá. Má vel vera, að hún hafi liðið í kyrrþey, þótt aldrei hefði hún orð á því og kvartaði ekki“ (88).


Kannski hefur Hólmfríður rifjað þetta upp þegar hún giftist síðar, manni sem hún leit mjög upp til og hafði völdin í farsælu hjónabandinu.


Hólmfríður kynntist ágætlega hinum fræga Sölva Helgasyni sem jafnan rogaðist með málaraborðið á bakinu á flakki sínu. „En ekki hafði fólk auga fyrir þessari list, sem honum sjálfum þótti svo mikils um vert, að hann fórnaði lífi sínu fyrir hana, en hlaut ekki annað að launum en hrakning og pyndingar“ segir Hólmfríður (93).


Ævintýri líkast...

Vorið 1897 giftist Hólmfríður Guðmundi Hjaltasyni, heimiliskennara og fyrirlesara, sem var sautján árum eldri en hún, og fluttist með honum á Langanes. Guðmundur var framfaramaður í menntamálum, skrifaði greinar í blöðin um kjör kvenna og barna og vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir ungmennafélög í landinu. Þótti eiginkonan unga honum varla samboðin, honum var t.d. boðið í mat á prestsetrið, en ekki Hólmfríði (107). Þau settust að á Þórshöfn vorið 1900 en bauðst svo að flytja til Noregs þar sem hagur þeirra vænkaðist.


Hólmfríður var þá um þrítugt og fékk í fyrsta sinn greitt í peningum fyrir vinnu sína (113) og fann til þess að hún var komin í aðra stétt. Hún bjó í notalegu húsnæði á fallegum stað, eignaðist vini og leið vel, henni var sýnd virðing og hún tók að rétta úr kútnum eftir að hafa allt sitt líf verið haldið niðri: „Minnimáttarkenndin, hið rótgróna merki fátæktar og umkomuleysis, hafði verið fylgifiskur hennar allt til þessa“ (120). Aldrei langaði hana aftur til Íslands en þar kom að hún varð að fylgja Guðmundi sem þráði að komast heim og starfa fyrir þjóð sína. Kjör þeirra versnuðu, þau misstu eitt barna sinna og loks dó Guðmundur 1919, 66 ára að aldri. Síðustu árin varð Hólmfríður því að fara aftur í vinnumennsku og lést síðan á elliheimili í Reykjavík. Þó fannst henni að líf sitt hefði verið „líkast ævintýri“ (142). Afkomendur þeirra hjóna eru merkismenn, m.a. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Guðni Th. Jóhannesson.


Viðbót við sögu eiginmannsins?

Þegar að er gáð eru forfeður og formæður okkar flestra vinnufólk og niðursetningar sem strituðu alla ævi í harðbýlu landi. Saga Hólmfríðar er saga margra íslenskra kvenna og það er dýrmætt að hún hafi varðveist. Þótt Hólmfríður sé hógvær og dul var það „eindregin ósk“ hennar að bókin yrði skrifuð. Guðmundur Hjaltason skrifaði sjálfsævisögu sína sem út kom 1923 og bendir Soffía Auður Birgisdóttir á það í fróðlegum eftirmála að hugsanlega hafi sagnaritarinn Elínborg eða Hólmfríður sjálf hugsað bók sína sem viðbót við sögu eiginmannsins. Hvað sem því líður er Tvennir tímar sjálfstæð saga og yndislestur fyrir alla sem vilja þekkja uppruna sinn og fortíð.