SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 6. mars 2021

Hamfarabækur

Bókmenntaþema dagsins er hamfarabækur. Þegar jörð hristist og von er á eldgosi hvenær sem er, rifjast upp Gæðakonur Steinunnar Sigurðardóttur (2014) og Eldarnir, ástin og aðrar hamfarir eftir Sigríði Hagalín sem kom út 2020.

Aðalpersónan í Gæðakonum eftir Steinunni heitir María Hólm Magnadóttir. Hún er eldfjallafræðingur, kennd við landið, hólmann, og elskar það af öllu hjarta. Hún er á miðjum aldri, þreytuleg og sliguð af eftirsjá og vinnuálagi, en eftir að hafa lifað af tvö hundruð metra fall á Vatnajökli fær hún nýtt tækifæri, öðlast annað líf.

Pælingar Steinunnar Sigurðardóttur um ástina og (ó)hamingjuna eru oft spaugilegar enda er manneskjan „ólukkudýr og getur ekki annað gert en bera sína ólukku með reisn“ (14) eins og segir í Gæðakonum. Bókin sú á alltaf erindi í umræðuna, m.a. vegna róttækra hugmynda sem þar birtast um kvenfrelsi og kynferði og um verndun íslenskrar náttúru gegn umhverfisspjöllum og rányrkju. Þar er hörð gagnrýni á íslenska þjóð, fjölmiðla og stjórnarfar, gagnrýni sem leitar skýringa í sögulegum forsendum. Sjaldan hefur Steinunn verið svo ómyrk í máli:

„Íslandssagan er hryllingssaga, ekki bara af náttúruhamförum, heldur líka af kúgun, innlendri og útlendri, vesaldómi fólksins. Við fórum fyrst að rétta úr kútnum upp úr seinna stríði – það var stríðsgróðinn sem gerði okkur eina af ríkustu þjóðum heims. Við höfum gleymt því hvernig áður var, þótt það sé svona stutt síðan. Landar mínir horfast ekki í augu við ömurlega fortíðina. Þeir láta eins og þeir séu hver önnur þjóð sem hefur verið í borgaralegu samfélagi í mörghundruð ár. Þeir láta eins og allt sé best á Íslandi og hafi alltaf verið það. Þess vegna erum við veik þjóð“ (163).

Í formála sögunnar er María lítil pabbastelpa á Brunasandi sem missti föður sinn og undirliggjandi er djúpur söknuður eftir honum. Hún er nægjusamur nautnabelgur og sér spaugilegar hliðar á lífinu þótt hún sé spéhrædd. Hún er venjuleg kona og vísindamaður á heimsmælikvarða en kvenleg hógværð er að drepa hana. María ein veit að eldgos er yfirvofandi en þykist vita að henni verði ekki trúað og nennir ekki að láta þagga niður í sér. Hún glímir við margs konar vanda í einkalífinu, bæði fornar og nýjar ástir skjóta upp kolli í sögunni og hún þarf að taka á málum og að auki hvílir á herðum hennar ábyrgð á eldgosavörnum, heimsfriði og kvennabyltingu. Um Gæðakonur má lesa meira hér.

Í skáldsögunni Eldarnir, ástin og aðrar hamfarir er Anna Arnardóttir sem líka er eldfjallafræðingur að glíma við ástríður sem krauma innra með henni. Jarðskjálftar skekja Reykjanesskaga og eldfjöll vakna til lífsins eftir 800 ára hlé. Enginn þekkir þau betur en Anna, forstöðumaður Jarðvísindastofnunar, sem þarf að takast á við stærsta verkefni ferilsins við stjórn almannavarna. En áferðarfallegt og fullkomið líf hennar lætur ekki lengur að stjórn og hún stendur frammi fyrir erfðum valkostum.

„Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir er vel skrifuð og mjög áhugaverð bók. Hún er hugvitsamlega byggð og margir þræðir saman fléttaðir af leikni. Sá þráður sögunnar sem er mest heillandi er sá sem tengist eldfjallavirkni og jarðfræði Íslands. Unnendur skáldskapar og náttúru Íslands fá hér mikið fyrir sinn snúð en einnig þeir sem hafa gaman af spennu- og ástarsögum. Það er í raun aðdáunarvert hversu vel Sigríði Hagalín tekst að skrifa sögu sem er rótföst í samtímaveruleika um leið og atburðarásin byggist á fantasíu - sem vonandi verður aldrei að veruleika“ ritaði Soffía Auður Birgisdóttir í umfjöllun sinni um bókina.

Manst þú eftir fleiri hamfarabókum?