• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Halla er maístjarnan!


Halla Þórlaug Óskarsdóttir er handhafi Maístjörnunnar 2020

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir:

Þagnarbindindi er áhrifarík ljóðsaga sem sver sig í ætt við ýmis eftirtektarverð verk frá síðasta áratug, jafnt innlend sem erlend, þar sem konur skrifa á hugdjarfan og hispurslausan hátt um sára og erfiða reynslu. Hér tekst skáldið meðal annars á við ástarsorg, móðurmissi og móðurhlutverkið og nær að draga upp margræða mynd af reynsluheimi ungrar konu sem er að stíga inn í fullorðinsárin og takast á við áföll og samskiptaerfiðleika. Útkoman er eftirminnileg bók sem sker sig úr, þökk sé eftirminnilegu myndmáli, óvenjulegri byggingu og frumlegum texta sem rambar á mörkum dagbókarskrifa, brotakenndrar frásagnar, ljóðtexta og ritgerðar.

Á vef RSÍ segir: Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar.

Tilnefndar voru fjórar bækur auk Þagnarbindindis, fjórar eftir konur og ein eftir karl:

Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur. Draumstol eftir Gyrði Elíasson. Kyrralífsmyndir eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. 1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur.