• Helga Jónsdóttir

Hafljóð eftir Önu Mjallhvíti Drekadóttur


Ljóð vikunnar eru þrjú að þessu sinni og eftir skáldkonuna Önu Mjallhvíti Drekadóttur eða Önu Stanicevic. Skáldanafn Önu má skýra með því að hún er dóttir hinna serbnesku Snežönu og Dragans en nöfn þeirra útleggjast á íslensku Mjallhvít og Dreki. Í pistli sem Ana flutti á Rás 1 á þjóðhátíðardegi Íslendinga fyrir nokkrum árum tengir hún brúðkaupsdag foreldra sinna, 17. júní 1982, þeim sterku rótum sem hún hefur fest á Íslandi en hún segist vera „afkvæmi ástar sem fagnað var á fæðingardegi Íslands og aðdráttaraflið sem ég fann fyrir öll þessi ár dró mig hingað að lokum.“

Ana hefur tekið virkan þátt í íslenskri bókmenntasenu síðan hún fluttist til landsins og birt ljóð á ýmsum miðlum og í tímaritum; þar á meðal í Ós og Tímariti Máls og menningar. Árið 2017 kom út serbnesk þýðing hennar á Mánasteini eftir Sjón sem ber titilinn Mesečev kamen: dečak koji nikad nije postojao.


Tvö eftirfarandi ljóða, „Akkeri“ og „Hvernig á að eyða sumardegi“ hafa áður birst á vefnum Starafugli en ljóðið „Steypumót“ birtist hér í fyrsta sinn.
Akkeri


með berfættum dansi

mun ég heiðra hafmeyjusporin

flæða yfir

og aftur í rauða hafið


***


Steypumót


Skeljar safna kossum

eyrun hvíslum hafs.

Vatnið bleytir vangann

saltið kyssir strendur.

Öldurnar óska í hljóði

raddirnar öskra í hljómi.


***


Hvernig á að eyða sumardegi


að láta mýflugur borða sig í morgunsárið

rétt eins og maður lætur elskhuga

elska sig í skógi

elskov i skov

synda svo yfir haf

og dansa kvöldið burt á nöglum

á lítilli eyju án trjáa