• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Gasofn eða pillur?


Ljóðasafn Þórdísar Gísladóttur 2010-2015 inniheldur þrjár ljóðabækur. Ljóð Þórdísar fjalla m.a. um tilvist og tilveru, konur, kvenímyndir, smáborgarahátt og kynlíf, á íronískan og grátbroslegan hátt þar sem broddurinn beinist bæði að skáldkonunni sjálfri og samfélaginu sem hana ól.


Úlfhildur Dagsdóttir ritar formála að ljóðasafninu og lýkur honum á svofelldum orðum:

„Ljóð Þórdísar einkennast af skarpskyggnri sýn á einstaklinga og samfélag, ljóðið sjálft og svo auðvitað hin margvíslegu rök velúrklæddrar tilvistarinnar. Skáldkonan teiknar upp í textum sínum smáatriði hversdagsleikans og fáránleika hins daglega lífs; í bakgrunni glittir í stærri mynstur örlaga og átaka“ (22). Þá vaknar brennandi spurning: Hvort eru konur alltaf að yrkja um smáatriði og hversdagsleika eða er það bara svona oft sagt um verk þeirra og ekki kafað dýpra?


Félagslegt raunsæi


Ég er aldrei með glóðarauga,

ekki einn einasta marblett,

varla snurðu á sálinni eftir andlegt ofbeldi.


Ég hef hvorki komið í Kvennaathvarfið

né í ráðgjöf til Stígamóta,

þangað á ég ekkert erindi því ég er heppin.


Ég á hillur með heimsbókmenntum, skvísubókum og ljóðum,

værðarlegan kött, sömbutónlist og Sjostakovits.

Ég sendi aldrei rætna tölvupósta eða dónaleg SMS eftir

miðnætti.


Líkami minn hefur ótvírætt skemmtigildi

þrátt fyrir að hann standi líkama Ásdísar Ránar langt að baki.

Gáfaðir karlmenn girnast mig á þriðja glasi.


Ég á peninga í bankanum, háskólapróf í höfðinu,

íbúð í miðbænum og drekk sojalatte með frambjóðendum

og fjölmiðlafólki.


Ég á gasofn sem gott er að stinga hausnum inn í,

uppskriftir að mólótovkokteilum og matarsódasprengjum,

beitta hnífa, pillur, viskíflöskur og romm,

bíl sem hægt er að aka fram af bryggju

og baðslopp með belti sem hægt er að hengja sig í.


Þórdís Gísladóttir, Leyndarmál annarra