• Guðrún Steinþórsdóttir

Góðar stelpur


Kristín Ómarsdóttir er eitt af okkar fremstu skáldum en hún hefur sent frá sér jafnt ljóð, skáldsögur, smásögur, örsögur og leikrit. Í fyrra kom út ljóðasafn sem geymir fyrstu átta ljóðabækur Kristínar en safnið er mikill fengur fyrir alla ljóðaaðdáendur. Ljóð dagsins er eftir Kristínu og nefnist Ljóð um góðar stelpur.Ljóð um góðar stelpur

Góðar stelpur klappa manni á bakið í mjólkurdeild matvöru-

verslana því þær vilja hvetja mann og örva.

Góðar stelpur gefa manni pening fyrir súkkulaði þegar

maður er svangur.

Góðar stelpur tala um góða veðrið í góðu veðri og vonda

veðrið í vondu veðri.

Góðar stelpur sjá gott þarsem er gott og vont þarsem er vont.

Góðar stelpur kunna að hátta sig. Þær fara í ákveðinni röð

úr fötunum.

Fyrst úr sokkunum.

Góðar stelpur gorta sig aldrei af skítugum tám.

Næstfyrst úr peysunni.

Þvínæst úr pilsi eða buxum.

Alltaf síðast úr nærbuxunum.

Góðar stelpur ríða með góðmennskunni og gráta að samförum

loknum.

Góðar stelpur þefa aldrei af eigin sokkum heldur annarra.

Þannig koma þær góðu til leiðar.

Góðar stelpur strjúka manni um hárið á síðkvöldum.

Góðar stelpur gefa mömmum sínum bækur um gott fólk.

Góðar stelpur segja við mömmur sínar:

Mamma, verum góðar hvor við aðra.

Góðar stelpur eru grenjuskjóður í laumi.

Góðar stelpur.

Vonandi er mynd þeirra hér skýr og varhugaverð.

Góðar stelpur.

Gæða sér á guðsgjöfunum og bursta tennurnar á eftir.

Góðar stelpur.

Passiði ykkur bara á mér.Hér má hlusta á skáldkonuna lesa upp ljóðið: