• Ritstjórn

Fyrsta ljóðabók Önnu Láru


Anna Lára Möller (f. 1966) hefur sent frá sér sína fyrstu ljóðabók sem ber titilinn VONIN.


Í bókinni er að finna bæði ljóð og örsögur og skiptist hún í 6 kafla sem nefnast: Sorgin, Leiftursókn, Farsæld, Í Fréttum er þetta helst ..., Örsögur og Vonin.


Ljóð Önnu Láru leika gjarnan á mörkum sorgar og gleði; þau lýsa sárri andlegri lífsreynslu, ást, þrá, tælingu, missi og örvæntingu.


Í örsögunum bregður höfundur á leik í fjölbreytilegum sögum þar sem greina má bæði háð og skop, en einnig ljóðrænar stemmningar og ádeilu.


VONIN er tileinkuð minningunni um eiginmann Önnu Láru, Jóhann Möller, sem lést á vormánuðum 2018. Bókin fæst í öllum helstu bókabúðum og má kaupa á netsíðum Forlagsins og Pennans-Eymundsson. Höfundarlaun af bókinni munu renna óskipt til hjartadeildar Landspítala.


Í kaflanum Í fréttum er þetta helst ... er að finna þetta ljóð:


Feigðarflótti


Ég flýt ekki á fleka á Miðjarðarhafi

ég bý í fínu húsi í forréttindalandi

ég á ekki barn sem drukknaði í flæðarmáli

undan ströndum Túnis í dag

ég á barn sem leikur sér úti

og býr við forskot í lífi og lifir í táli

Angi með andlit ofan í strandarsandi

endar sitt líf í ókunnu landi

Við augnabliks áhorf á fréttir

súpum við hveljur

hryllum okkur yfir veröldinni

og snúum okkur að öðru

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband