• Soffía Auður Birgisdóttir

Fyrsta bók Hjördísar Kvaran

Hjördís Kvaran Einarsdóttir hefur sent frá sér sína fyrstu ljóðabók, sem ber titilinn URÐ.


Hjördís hefur áður birt ljóð sín í litlum ljóðaheftum og á netinu og því eru það mikil tímamót að sjá ljóð sín á prenti á bók.


Ljóðin í URÐ eru samin á um það bil 30 ára tímabili, víðsvegar á Íslandi og erlendis.


Bókin er einnig prýdd skemmtilegum myndum eftir Pétur Baldvinsson, sem líka á heiðurinn af hönnun bókarinnar.


URÐ skiptist í þrjá hluta sem heita: ENGINN - RÆÐUR - FÖR sem kannski má segja að myndi saman nokkurs konar undirtitil bókarinnar.


Skáld.is óskar Hjördísi til hamingju með bókina og býður hana velkomna í skáldatalið.Titilljóð bókarinnar:URÐ

Það eru líkur á
að þú finnir mig
á meðal burt floginna blóma
sem döguðu uppi
að morgni tilveru sinnar.

Söm urðu örlög ástar minnar
þeirrar sem hreifst,
vegna tilurðar þinnar,
en dó sökum veruleikans
sem fól í sér uppgjör
tveggja ólíkra sálna.

Aðeins hún var til
á miðnætti lífsins
og beið dögunar.