SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir15. febrúar 2021

Frumbirting ljóðs eftir Margréti Lóu Jónsdóttur

Næstkomandi fimmtudag kemur út ljóðabókin Draumasafnarar eftir Margréti Lóu Jónsdóttur.

Draumasafnarar geymir myndræn og tregafull ljóð um horfna vini og hlátur sem ómar ekki lengur en er um leið óður til lífsins og ferðalagsins framundan.

Margrét Lóa sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók einungis átján ára gömul árið 1985. Draumasafnarar er ellefta ljóðabók hennar.

Skáld.is óskar Margréti Lóu innilega til hamingju með bókina og þakkar henni jafnframt fyrir að fá að frumbirta eitt ljóðanna:

 

Íbúðin okkar í Vista Alegre-götu

 

Þegar vinkona mín er nýfarin héðan

galopna ég þakglugga og stíg upp á

rúmið hennar.

 

Þannig stend ég dágóða stund

með líkamann til hálfs

inni í þoku.

 

Í augnablikinu er hér ekkert að sjá.

 

Á mæninum spígsporar fugl

– líklega máfur.

 

Ég finn svalan blástur

frá vörum vindsins

 

veit að í norðaustri er kirkjuturn

en í beinni línu í norðvestur

– allt sem ég sakna.