• Guðrún Steinþórsdóttir

Freyðandi ljóðFimmtudaginn 2. september er í boði Ljóðakaffi á Borgarbókasafninu í Kringlunni sem rithöfundurinn og útvarpskonan Júlía Margrét Einarsdóttir hefur umsjón með. Þrjú skáld í yngri kantinum; þau Arndís Lóa Magnúsdóttir, Brynja Hjálmsdóttir og Dagur Hjartarson; munu stíga á stokk og lesa upp úr verkum sínum.


Arndís Lóa er yngsta skáldið í hópnum en hún er fædd 1994. Hún fékk nýræktarstyrk til að gefa út sitt fyrsta verk, ljóðabókina Taugaboð á háspennulínu, sem kom út í fyrra. Bókinni var afar vel tekið en hún var tilnefnd til Maístjörnunnar. Brynja er fædd 1992. Frumraun hennar, ljóðabókin Okfruman (2019), var tilnefnd til Fjöruverðlauna og hlaut verðlaun bóksala. Brynja hefur einnig birt ljóð í tímaritum og safnritum og nú í haust er von á nýrri ljóðabók frá henni. Dagur er fæddur 1986 en hann hefur meðal annars sent frá sér ljóðabækurnar Fjölskyldulíf á jörðinni, Þar sem vindarnir hvílast og Heilaskurðaðgerðin. Júlía Margrét er fædd 1987 en hún er höfundur skáldsögunnar Drottningin á Júpiter og ljóðabókarinnar Jarðarberjatungl.


Ljóðakaffið hefst kl. 17:30 og stendur yfir í klukkutíma. Eins og fram kemur í lýsingu á viðburðinum á Facebook verður boðið upp á freyðandi ljóð og léttar veitingar og eru allir hjartanlega velkomnir.