• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Flækjur erfastMaría Elísabet Bragadóttir (f. 1993) bættist í skáldatalið í dag. Hún sendi frá sér smásagnasafn á dögunum sem hún nefnir Herbergi í öðrum heimi. Skemmst er frá því að segja að bókin hefur fengið glimrandi dóma og var kjörin ein af uppáhalds hjá bóksölum á árinu 2020.


Í viðtali í Fréttablaðinu í desember sl. segir skáldkonan:


„Fjölskyldusambönd eru mér hugleikin. Flækjur erfast jafnvel kynslóð fram af kynslóð og búa til þessa einstöku nánd sem er frábær efniviður í skáldskap. Fjölskyldusambönd eru sambönd sem við veljum okkur yfirleitt ekki sjálf og það er kannski einmitt það sem gerir þau svona merkileg.“

Skáldsaga í bígerð

Spurð um framhaldið segist María Elísabet nú þegar vera byrjuð á næstu bók sem er skáldsaga. „Ég er mjög mikill aðdáandi smásagnaformsins, ég elska smásögur, en þegar ég var að skrifa Herbergi í öðrum heimi fannst mér stundum erfitt að skilja við sögupersónurnar. Svo nú er ég að vinna í skáldsögunni minni, þá getur maður aldeilis varið mörgum blaðsíðum með sögupersónunum sínum. Mig langar að skrifa alls konar bækur.“


Fínn ritdómur eftir Evu Dagbjörtu Óladóttur er hér og þar segir m.a.:

„Styrkur sagnanna í Herbergi í öðrum heimi liggur þannig í tvíræðum veruleika sem er bæði annarlegur og kunnuglegur og í gölluðum einmana persónum sem gera óþægilega kunnugleg mistök. Þó er tónninn í bókinni alls ekki svartsýnn. Við erum öll aðeins úr sambandi, öll aðeins að misskilja hvert annað og öll svolítið einmana. En það þýðir ekki að það sé ekki ástæða til að reyna. Ekki vegna þess að dag einn hrökkvi kannski allt í liðinn og einangrun og misskilningur hætti að vera til, heldur af því að mannleg samskipti felast einmitt í skapandi misskilningi, heimsmyndaárekstrum og því að halda endalaust áfram að reyna.“


Við bíðum spenntar eftir næstu bók!