Fjallaverksmiðja Íslands út í heim


Þær skemmtilegu fréttir bárust nú á dögunum að Kristín Helga Gunnarsdóttir hefði selt bandaríska framleiðslufyrirtækinu Inner Voice Artists kvikmyndarétt að bók sinni Fjallaverksmiðja Íslands. Í viðtali á Vísi.is greinir skáldkonan frá tíðindunum en þar kemur fram að ætlunin sé að gera sjónvarpsþætti upp úr bókinni og að hinir mexíkósku Munoz-bræður muni skrifa handritið og leikstýra þáttunum. Að sögn Kristínar Helgu er þó ekki gefið að sjónvarpsefnið verði að veruleika þótt rétturinn hafi verið seldur. Ýmislegt þurfi að gerast áður en ef allt gengur upp er markmiðið að framleiða að minnsta kosti 8-10 þætti upp úr bókinni með möguleika á framhaldi.


Skáldsaga Kristínar Helgu, Fjallaverksmiðja Íslands, kom út árið 2019 og tekur á einu brýnasta málefni okkar tíma, viðhorfum mannsins til náttúrunnar og loftlagsvánni. Bókin segir frá sjö nýstúdentum sem stofna Fjallaverksmiðju Íslands, draumasamfélag í bragga, til dýrðar náttúru, sjálfbærni og nægjusemi. Í bragganum prjóna þau og brugga, rusla, elda og dreyma en boðskap Fjallaverksmiðjunnar er streymt á netið þar sem sífellt fleiri bætist í áhorfendahópinn. Allt gengur ljómandi vel þar til áhrifavaldurinn Emma finnst meðvitundarlaus á kajak í lóninu en þá breytist allt.


Sögunni var vel tekið þegar hún kom út en meðal annars létu gagnrýnendur eftirfarandi orð falla:„Fjallaverksmiðja Íslands er vel skrifuð og vel uppbyggð bók sem á erindi til allra lesenda.
Katrín Lilja / Lestrarklefinn

„Vel skrifuð og áhugaverð saga um náttúruvernd, hugsjónir og raunveruleika … Þessa bók mætti sennilega flokka sem ungmennabók en hún á hins vegar erindi langt út fyrir þá skilgreiningu.
Brynhildur Björnsdóttir / Fréttablaðið

„Ég hafði mjög gaman að henni, mér fannst hún virkilega vel skrifuð.
Guðrún Baldursdóttir / Kiljan

„Það þarf að skrifa svona fyrir krakka og táningar gætu líka haft gaman að þessu.Sverrir Norland / Kiljan

Í fyrrnefndu viðtali segir Kristín Helga að bók hennar hafi að miklu leyti verið innblásin af baráttu Gretu Thunberg og nefnir að framleiðslufyrirtækið Inner Voice Artists hafi einmitt framleitt kvikmyndina I Am Greta um baráttu sænsku stúlkunnar í þágu umhverfisverndar. Búið er að þýða Fjallaverksmiðju Íslands yfir á ensku en samkvæmt Kristínu Helgu er útgáfa bókarinnar erlendis komin í ferli. Hún sér fyrir sér að sjónvarpsþættirnir verði á ensku og hugsanlega verði sagan látin gerast annars staðar í heiminum en á Íslandi, mögulega í Alaska í Bandaríkjunum.


Skáld.is óskar Kristínu Helgu til hamingju með að hafa selt kvikmyndaréttinn að sögu sinni og hlakkar til að fylgjast áfram með ferðalagi Fjallaverksmiðju Íslands.


Hér má lesa viðtalið við Kristínu Helgu á Vísi.is