• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Fjöruverðlaunin veitt

Í dag voru fjöruverðlaunin afhent í Höfða, Reykjavík.Myndin er af vef FjöruverðlaunannaVerðlaunahafar 2021 eru:Margrét Tryggadóttir og Linda Ólafsdóttir fyrir Reykjavík barnanna


Fríða Ísberg fyrir Merkingu


Sigrún Helgadóttir fyrir Mynd af manni, ævisögu Sigurðar Þórarinssonar. Sigrún hreppti líka íslensku bókmenntaverðlaunin 2021
Fjöruverðlaunin voru fyrst afhent vorið 2007 og hafa verið veitt árlega síðan. Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum; flokki barnabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis


Við óskum verðlaunahöfunum hjartanlega til hamingju.


Rökstuðningur dómnefndar


Merking eftir Fríðu Ísberg kallast skýrt á við íslenskan samtíma þó að sagan sé vísindaskáldsaga sem gerist í framtíðinni. Ólíkum persónum er fylgt eftir þar sem sögur þeirra fléttast saman í frásögn sem gefur ekkert eftir í heimspekilegri skoðun sinni á samfélagi okkar. Sagan er frumleg og stíllinn nýskapandi og notkun tungumálsins einkar úthugsuð og áhrifarík og styður við heildstæða persónusköpun verksins.


Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur fjallar um ævi og starf eins merkasta vísindamanns Íslands á 20. öld. Saga Sigurðar er samofin sögu jarðfræðirannsókna, jöklaferða og náttúruverndar á Íslandi. Höfundur fer með lesandann í heillandi ferðalag upp á jökla, í gegnum öskulög og inn í kvikuhólf í fylgd með vísindamanninum, söngvaskáldinu og náttúruverndarsinnanum Sigurði. Bókina prýðir aragrúi mynda sem glæða frásögnina lífi og dýpka skilning á efninu.


Reykjavík barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur fjallar um sögu Reykjavíkur frá því fyrir landnám til vorra daga. Bókin er ríkulega myndskreytt og er hver opna afmörkuð innsýn í sögu borgarinnar. Höfundar draga fram fjölbreyttan fróðleik og gera skil á skemmtilegan hátt í góðu jafnvægi texta og mynda. Texti Margrétar er hnitmiðaður í auðlesnum efnisgreinum og myndir Lindu eru litríkar og bæta ýmsu við. Bókin vekur löngun til að fræðast meira um höfuðborgina.


Í dómnefnd sátu:

Barna- og unglingabókmenntir:

  • Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, lektor í íslensku

  • Brynja Helgu Baldursdóttir, íslenskufræðingur

  • Hildur Ýr Ísberg, íslensku- og bókmenntafræðingur

Fræðibækur og rit almenns eðlis:

  • Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur

  • Sigrún Birna Björnsdóttir, framhaldsskólakennari

  • Sigrún Helga Lund, tölfræðingur

Fagurbókmenntir:

  • Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur

  • Elín Björk Jóhannsdóttir, bókmenntafræðingur

  • Júlía Margrét Sveinsdóttir, bókmenntafræðingur


Hér má lesa um tilnefningarnar í desember sl.


Hér má lesa umfjöllun Steinunnar Ingu um Merkingu eftir Fríðu Ísberg