• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

„Er grauturinn soðinn,/ er bótin bætt" ?


Ljóð dagsins er eftir Guðrúnu Árnadóttur frá Oddsstöðum. Það birtist í tímaritinu 19. júní árið 1963 og ber engan titil en er kynnt sem lítið ljóð. Myndin af auglýsingunni sem hér fylgir er sótt í sama tölublað.


Ljóð Guðrúnar fjallar á meinhæðinn hátt um skyldur konunnar:Ég ætlaði að skrafa við skylduna orð

það skeður þá loksins nú.

„Ég saka þig um minnar sálar morð.

Hverju svarar þú?"


„Er grauturinn soðinn,

er bótin bætt,

eru burstaðir allir skór?

Eru bónuð gólfin,

er brauðið ætt,

og fest þessi tala sem fór?"


- Minnar sálar morð, - var ei svara vert.

Og svo hef ég ekkert gert.