- Helga Jónsdóttir
Enn vex Skáldatalið

Auður Þórhallsdóttir er skáldkona dagsins en hún hefur nú bæst við Skáldatalið. Hún er með bakgrunn í ljósmyndun, þjóðfræði og spænsku en hefur jafnframt sótt sumarskóla í myndskreytingu barnabóka í Anglia Ruskin University, Cambridge School of Art.
Auður hefur skrifað og myndlýst nokkrar barnabækur en fyrir bókina, Miðbæjarrottan – borgarsaga, fékk hún útgáfustyrk frá Auði barna- og ungmennabókasjóði. Bókin segir frá leit miðbæjarrottunnar Rannveigar að frænku sinni en er jafnframt fróðlegt ferðalag um styttur borgarinnar með femínískum undirtón. Í byrjun næsta árs er von á nýrri bók um miðbæjarrottuna sem einnig hlaut útgáfustyrk frá Auði barna- og ungmennabókasjóði en hún mun heita Miðbæjarrottan: þetta kemur allt með kalda vatninu.
Ljósmynd af Auði er fengin af vef Skriðu bókaútgáfu.