• Soffía Auður Birgisdóttir

Enn fleiri glæpasögur eftir konur!

Fyrir stuttu síðan vakti Skáld.is athygli á nýjum glæpasögum eftir íslenskar konur og taldi að þær væru 5 talsins. Nú hefur komið í ljós að bækur af þessari tegund eftir konur eru fleiri og bætum við fyrir það sem okkur sást yfir hér.


Þar ber fyrst að nefna SKAÐA eftir Sólveigu Pálsdóttur en þar er um að ræða sjöttu glæpasögu höfundar sem einnig hefur sent frá sér minningabókina Klettaborgina. Sólveigu hefur vegnað mjög vel á þessari braut, hún hlaut t.a.m. glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann fyrir bókina Fjötra, sem kom út 2019 og bækur hennar hafa verið þýddar á erlend mál. SKAÐI segir frá þrennum pörum sem fara í helgarferð til Vestmannaeyja, þau skemmta sér vel en ekki komast allir aftur heim, svo kalla þarf út lögregluteymi til að rannsaka málið. SKAÐI mun koma út á ensku og var hún seld til Bretlands áður en Sólveig hafði náð að ljúka við að skrifa bókina.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagnfræðingur og rithöfundur sendi í haust frá sér sína fyrstu glæpasögu, sem ber titilinn MANNAVILLT. Í kynningu útgáfunnar segir um efni bókarinnar:


Dularfull dauðsföll gamalla vinnufélaga og gáleysislegt tal á bar setja furðulega atburðarás af stað. Mannavillt er nýstárleg íslensk glæpasaga þar sem höfundur gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn og lesandinn sogast inn í æsilega og blæbrigðaríka frásögn.

Anna Margrét Sigurðardóttir er nýr höfundur sem gefur út sína fyrstu bók sem rafbók og hljóðbók á Storytel. Sagan nefnist HRINGFERÐIN og er kynnt á eftirfarandi hátt:


Sumarið 2020 finnst fjölskyldufaðir myrtur. Líkið er illa útleikið og skilaboð frá morðingjanum finnast á vettvangi, rituð með blóði. Áður en langt um líður teygja angar málsins sig út fyrir höfuðborgarsvæðið. Hin reynda rannsóknarlögreglukona Bergþóra þarf að takast á við þetta flókna morðmál með nýliðann Jakob í eftirdragi og rannsóknardeildina í lamasessi eftir COVID-19 smit. Á sama tíma leggur fimm manna fjölskylda af stað í hringferð um landið, óafvitandi um hættuna sem því fylgir. Við erfiðar aðstæður og í kappi við tímann vaknar spurningin: Hvert er takmark þessa margslungna morðingja? Hringferðin er æsispennandi krimmi sem talar beint inn í samtímann.

Þá má minna á að síðastliðið vor sendu tvær reyndar skáldkonur frá sér fyrstu glæpasögu sína. Ingibjörg Hjartardóttir frá sér skáldsöguna JARÐVÍSINDAKONA DEYR þar sem hún 'fetar glæpsamlegar slóðir', eins og sagði í kynningu forlagsins. Þar segir einnig:


Í huga fólks er fyrsta skóflustungan ætíð visst merki um upphaf; eitthvað nýtt er í sjónmáli, verk til hins betra er hafið. Erlendur auðjöfur reisir kísilver í afskekkta þorpinu Selvík. Af hverju er ekki íbúafundur til þess að upplýsa fólkið betur? Býr eitthvað meira að baki? Hvað með hættumat vegna jarðskjálfta? Selvík er á einu virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Forvitni Margrétar er vakin þegar ung jarðvísindakona finnst látin í bíl sínum á heiðinni og óvæntir atburðir eiga sér stað í þessu friðsæla þorpi. Sjálfskipaði kvenspæjarinn rekur hvern þráð sem á vegi hennar verður og unir sér engrar hvíldar fyrr en sannleikurinn lítur dagsins ljós.


Ragnheiður Gestsdóttir gaf út spennusöguna FARANGUR en 2019 kom út eftir hana fyrsta skáldsagan fyrir fullorðna lesendur og kallaðist Úr myrkrinu. Ragnheiður hefur fyrir löngu getið sér gott orð sem höfundur bóka fyrir börn og unglinga. Í kynningu forlagsins segir um FARANGUR:


Ylfa stendur á brautarpallinum, loksins búin að gera upp hug sinn. Hún verður að komast burt. Undir eins, áður en hann vaknar. Lestin, sem er væntanleg á hverri stundu, mun bera hana fyrsta áfangann á leiðinni heim. Heim í öryggið á Íslandi. Ekkert má koma í veg fyrir að hún komist af stað. Ekki einu sinni þessi óvænti farangur sem hún fær í fangið. Farangur er grípandi og hrollvekjandi spennusaga.

Það er ljóst að íslenskir kvenrithöfundar sækja sem aldrei fyrr inn á svið glæpa- og spennusagnaritunar og flóran verður sífellt fjölbreyttari.