• Helga Jónsdóttir

Enn ein rósin í hnappagat Evu Bjargar


Eva Björg Ægisdóttir hefur nú þegar hlotið tvenn verðlaun fyrir frumraun sína Marrið í stiganum (2018) en hún var fyrst höfunda til að hneppa Svartfuglinn árið 2018 og tveimur árum síðar hlaut hún Íslensku hljóðbókaverðlaunin fyrir sama verk. Þriðju verðlaunin bættust svo við í upphafi mánaðarins þegar Eva Björg hlaut „rýting“ Samtaka breskra glæpasagnahöfunda í flokknum nýliði eða „nýtt blóð“ („New blood“) ársins 2021. Marrið í stiganum kom út í enskri þýðingu Victoriu Cribb snemma á síðasta ári og er þetta í fyrsta sinn sem þýtt verk hlýtur verðlaun í þessum flokki. Á síðu verðlaunanna segir um bókina:


„Dularfull, margbrotin og íhugul, þetta er saga um kvíða og sektarkennd þar sem leyndarmál, að því er virðist, tiltölulega lítils bæjar eru grafin upp eitt af öðru.“


Umræddur bær er Akranes og í umsögninni er því jafnframt haldið fram að kvenhetjan, sem lesendur Evu þekkja sem lögreglukonuna Elmu, hafi alla burði til að bera uppi heilan bókaflokk. Raunar hafa komið út tvær bækur til viðbótar um Elmu, Stelpur sem ljúga (2019) og Næturskuggar (2020) og hver veit nema lögreglukonan mæti aftur til leiks í næstu bók Evu sem von er á í haust?


Ljóst er að Marrið í stiganum hefur fengið afar góðar viðtökur og rýtingurinn mun eflaust auka veg þessarar hæfileikaríku og atorkusömu skáldkonu enn frekar. Við óskum Evu Björgu innilega til hamingju og bíðum spenntar eftir næstu bók.