• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Elín Edda hreppti þriðja sætið


Elín Edda Þorsteinsdóttir hreppti þriðja sætið í ljóðasamkeppninni um Ljóðstaf Jóns úr Vör. Hún er bæði ljóðskáld og grafískur hönnuður en verk Elínar Eddu má kynna sér frekar á heimasíðu hennar.


Það er vert að geta þess að hægt verður að hlusta á Elínu Eddu flytja verðlaunaljóðið á Ljóðakvöldi Blekfjelagsins sem haldið verður á Cafe Catalínu næstkomandi föstudagskvöld, sjá frekari upplýsingar hér.


Skáld.is fékk góðfúslegt leyfi til að birta ljóð Elínar Eddu og óskar henni innilega til hamingju.
Kannski varstu allan tímann nálægt


Stundum villist þú og þarft að hjóla í marga hringi og fylla lungun af framandleika og stundum þarftu að stíga af hjólinu og rölta og kannski setjast á bekk og lesa í húsin eins og andlit á óskýrri hópmynd og fylgja síkjum, mávum, gæsum og finna frumstæðan áttavita dyrabjöllur, þök, tjarnir, strompa, hægri og vinstri og stundum dimmir og ljósastaurarnir eru einu vinir þínir en jafnvel þeir gefast upp og sem betur fer ertu með svefnpoka og þegar þú vaknar ertu í litlum almenningsgarði eða í verslunarkjarna sem fyllist af fólki og þú brýtur heilann um hvort þetta sé fólk að þínu skapi og þú kíkir ofan í innkaupapoka, bakpoka og veski og gerir könnun: hvað borðar fólkið? hvað les fólkið? hvað kýs fólkið? hefur fólkið smekk fyrir þér? Ef ekki heldurðu áfram kíkir inn um alla glugga rannsakar gardínur, málverk, hrærivélar, hraðsuðukatla

Þangað til þú hittir mann með blómvönd eða konu í ullarsokkum eða anda og þú gefst upp og spyrð hvar þú eigir heima og maðurinn eða konan eða andinn leiðir þig heim þótt þetta sé kannski ekki blómvöndur að þínum smekk eða ullarsokkar eða andardráttur

þá líður þér betur innan um grænan sófa, rimlagardínur og landslagsmálverk