• Soffía Auður Birgisdóttir

Ekki missa af!


Síðari þáttur Veru Sölvadóttur um Ástu Sigurðardóttur var á dagskrá rásar 1 í dag, 3. janúar en sá fyrri var sendur út 27. desember. Þetta eru stórgóðir og merkilegir þættir sem enginn bókmenntaunnandi má láta fram hjá sér fara. Þættina má nálgast í sarpi ríkisútvarpsins og bera þeir yfirskriftina Helmingi dekkri en nóttin. Svona eru þættirnir kynntir á vef rásar 1:


Fyrri þáttur
Á árunum 1951-1953 skrifaðist Ásta Sigurðardóttir á við Oddnýju yngri systur sína sem þá var búsett í Kaupmannahöfn. Á sama tíma var Ásta að gefa út sínar fyrstu smásögur sem vöktu óskipta athygli. Bréfin eru skrifuð á miklum straumhvarfaárum í lífi listakonunnar og varpa frekara ljósi á á persónu hennar og tilveru. Þrátt fyrir að sögur Ástu hafi vakið hneykslun og jafnvel þótt ósæmilegar hafa þær sannarlega staðið tímans tönn enda hefur Ásta stimplað sig rækilega inn í sögu íslenskra bókmennta og skáldverk hennar eru löngu orðin klassík. 

Seinni þáttur
Árið 1957 tók Ásta Sigurðardóttir saman við skáldið Þorstein frá Hamri og þau eignuðust fimm börn, þrjá drengi og tvær stúlkur. Fyrir átti Ásta einn son með Jóhannesi Geir listmálara. Ásta Sigurðardóttir andaðist í Reykjavík, langt fyrir aldur fram, 21. desember árið 1971, aðeins 41 árs að aldri eftir að hafa átt við áfengisvanda að stríða um langa hríð.