• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Eitt þúsund ferhendur og Morgunljóð

Ljóðabókin Grýtt var gönguleiðin eftir Birnu G. Friðriksdóttur kom út 1995 og er það afar óvenjuleg bók. Einskonar skáldsaga í bundnu máli um ævi förukonu.


Í 12. tbl. Norðurslóðar frá 1995 segir:


„Fyrir skömmu kom út bók sem mörgum Svarfdælingum og fleirum mun eflaust þykja býsna áhugaverð. Bókin nefnist Grýtt var gönguleiðin og er höfundur hennar Birna Friðriksdóttir fyrrum húsfreyja á Melum sem búið hefur á Akureyri hin síðari ár. Bókin er öll í bundnu máli en þó er hér ekki um venjulega ljóðabók að ræða. Hún er 160 blaðsíður að lengd og eru í henni rúmlega eittþúsund ferhendur sem mynda samfellda frásögn. Það kallast víst epísk frásögn á máli bókmenntafræðinnar. A bókarkápu segir að bálkurinn sé skáldverk, reynslusaga alþýðukonu sem fædd er á síðari hluta 19. aldar og lauk lífsstarfi sínu „á sauðskinnsskóm með sigg í lófum". Bókin er gefin út á reikning höfundar og í takmörkuðu upplagi. Verður hún væntanlega til sölu í versluninni Sogni á Dalvík en einnig er hægt að nálgast hana hjá höfundi sjálfum og dætrum hennar. ... Birna hefur að sögn kunnugra haft þennan kvæðabálk í smíðum um nokkurn tíma og er eins víst að hún lumi á fleira efni sem bíður birtingar.“


Birna G. Friðriksdóttir er nú í skáldatalinu.

Hér má lesa nokkur ljóða Birnu. Eitt nefnist Morgunljóð:

Liggur leynt á stráum léttur daggarúði, fyllir fjölda garða fagur blómaskrúði. Leggur skin um loftið léttist margra sinni, fagnaðsalda fyllir flest í tilverunni.

(1975)