• Soffía Auður Birgisdóttir

Eiga skáld skilið að lifa?

Í gær var tilkynnt um úthlutun listamannalauna, meðal annars úr Launasjóði rithöfunda. Þá upphefst tvenns konar kór; annars vegar þeir sem þreytast ekki á að agnúast út í að rithöfundar fái yfirhöfuð laun fyrir sína vinnu og finnst sjálfsagt að þeir snúi sér að öðru. Hins vegar eru skiljanlega margir rithöfundar í áfalli yfir því að fá ekki úthlutun; að lífsgrundvellinum sé kippt undan þeim í einu vettvangi og þeir neyðist til að snúa sér að öðru þrátt fyrir að þeir hafi sýnt ótvíræða hæfileika og sannað erindi sitt inn á svið íslenskra bókmennta. Við þá fyrrnefndu hef ég lítið að segja, geti þeir hugsað sér líf án lista og bókmennta er það að sjálfsögðu þeirra mál. Líklega geta þeir þá líka étið mat sinn saltlausan og ókryddaðan; listin er krydd lífsins og líf án lista og bókmennta snautt og ómerkilegt - og í raun óbærilegt líf - að mínu mati.


Endurskoðun nauðsynleg

Launasjóður rithöfunda (ég held mig við þann flokk því hann stendur mér næst) er að sjálfsögðu ekki yfir gagnrýni hafinn og vafalaust er kominn tími til að endurskoða vinnulag við úthlutanir um leið og auka þarf framlag í sjóðinn svo um munar.


Það er til að mynda alveg óverjandi að rithöfundar þurfi að sækja um laun á hverju ári í von og óvon um hvort þeir fái útborgað á næsta ári eða ekki. Þetta ættu allir sem eru á vinnimarkaði að skilja. Það er ekki auðvelt að gera áætlanir um framtíðina ef launaseðillinn er í formi happdrættisvinnings, dregið upp á nýtt á hverju ári. Meirihlutinn af þeim sem nú fengu úthlutað úr hærri flokkum launasjóðsins í ár ættu í raun þegar að vera komnir á ævilaun. Þetta er fólk sem löngu hefur sannað sig og ljóst er að ætlar að starfa við ritstörf ævina út (ef þeir veldu að hætta að skrifa, gætu þeir dottið út). Í nágrannalöndum okkar eru margir rithöfundar á ævilaunum, 5 ára launum, o.frv. Margir þeirra geta líka séð þokkalega fyrir sér einfaldlega með greiðslum vegna kaupa bókasafna á verkum þeirra, sem og útlánum, og höfundarlaunum. Það er ekki hægt í litlu samfélagi eins og á Íslandi. Ef við viljum eiga skáld og rithöfunda á þessu landi, verðum við að sjá til þess að þeir geti lifað, líkt og til dæmis bændur; við viljum að þeir geti lifað og greiðum þeim stórar fúlgur úr ríkissjóði til að svo sé mögulegt. Köllum það bara öðrum nafni, ekki "bændalaun" heldur "niðurgreiðslur". Þetta gerum við því við skiljum að afurðir bænda standa ekki undir mannsæmandi lífskjörum og það sama gildir um afurðir mikils meirihuta íslenskra rithöfunda.


Betur má ef duga skal

Sjálfsagt er að líka að þakka það sem vel hefur verið gert á undanförnum árum, þannig hafa til að mynda tveir fyrrum menntamálaráðherrar, Katrín Jakobsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir, staðið fyrir að fjármagn í sjóðinn hefur verið aukið, og nú síðast hækkað mánaðarlaunin. En betur má ef duga skal. Sú blákalda staðreynd blasir við þegar úthlutunarlistar eru skoðaðir, hversu margir framúrskarandi höfundar eru fjarverandi á listanum og hversu fá mánaðarlaun kom í hlut annarra. Verst er farið með þá yngstu og þá elstu. Líklega í mörgum tilvikum eru það einmitt þeir hópar sem mest þurfa á vinnu og launum að halda. Margir í fyrrnefnda hópnum að koma sér upp börnum og húsnæði, flestir í síðarnefnda hópnum að lenda í skerðingamaskínu ríkisvaldsins.


Örsamfélagið Ísland

Grundvallaratriðið í þessari umræðu er sú einfalda staðreynd að í örsamfélagi eins og á Íslandi er Launasjóður rithöfunda (sem og önnur listamannalaun) brýn nauðsyn. Hér er ekki, nema í örfáum undantekningum, hægt að lifa á því að skrifa bækur. Þeir sem andskotast yfir úthlutunum úr sjóðnum á hverju ári mega hafa í huga að þeir örfáu rithöfundar sem geta lifað á ritstörfum sínu, vegna metsölu innan lands og mikillar dreifingar á verkum sínum í erlendum þýðingum - sjá að sjálfsögðu sóma sinn í því að sækja ekki um laun úr sjóðnum þar sem svo lítið er til skiptanna.
Þótt þær Katrín og Lilja, hafi stækkað sjóðinn og hækkað launin þarf að hafa í huga að þau eru eigi að síður allt of lág því hér er um að ræða verktakalaun sem engin réttindi fylgja, svo sem lífeyrisréttindi og önnur réttindi sem almennum launþegum þykja sjálfsögð. Það er staðreynd sem kemur sérlega illa við rithöfunda í eldri kantinum sem fæstir eiga í gilda eftirlaunasjóði að sækja.


Kjör eldri rithöfunda

Það virðist vera óskráð regla að rithöfundar sem komnir eru yfir sjötugt eigi enga möguleika á úthlutun. Það er í raun ósvífið að vera með slíka óskráða reglu, heiðarlegra væri að hún væri uppi á borðinu svo höfundar á borð við Pétur Gunnarsson og Steinunni Sigurðardóttur - svo einhverjir séu nefndir - séu ekki að ómaka sig við að senda inn umsóknir sem krefjast mikillar og tímafrekar vinnu af þeirra hálfu. Slíkir höfundar ættu að sjálfsögðu að vera löngu komnir á ævilaun, þau sem kallast heiðurslaun og eru reyndar þannig hugsuð að við 70 ára aldurinn lækka þau. Í lögum um heiðurslaun má lesa:


Þeir einir geta notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa, skarað fram úr við listsköpun sína eða að störf þeirra að listum hafi skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi. Taka skal tillit til skiptingar í hópi heiðurslaunamanna eftir listgreinum og kynjum.


Þessi klausa á svo sannarlega við ofan nefnda tvo rithöfunda, sem og reyndar fjölda annarra. Að flokkurinn sé eins fámennur og raun ber vitni er til skammar. Í reglunum má einnig lesa:


Heiðurslaun listamanna eru veitt listamanni að fullu til sjötíu ára aldurs og skulu vera þau sömu og starfslaun listamanna eru á hverjum tíma. Eftir sjötugt verði þau 80% af starfslaunum til samræmis við eftirlaunarétt sem aðrar stéttir vinna sér inn.

Íslenskir rithöfundar sem komnir eru yfir sjötugt og eru ekki svo heppnir að vera í heiðurslaunaflokknum eru margir staddir á fjárhagslegu flæðiskeri - eins og reyndar stór hluti eldri borgara sem er hópur sem einhverra hluta vegna er hreinlega veist að með óskiljanlegum skerðingum ríkisvaldsins á möguleikum þeirra til þess að sjá sér forboða. Það er líka til skammar.


Hagræn margfeldisáhrif

Doktor Ágúst Einarsson hagfræðingur hefur fyrir löngu síðan með rannsóknum sínum og útgáfu bóka sýnt fram á hagræn áhrif ritlistar (2014), tónlistar (2004, 2012) og kvikmyndalistar (2011). Listageirinn skilar margfalt til baka því fjármagni sem hann þiggur úr ríkissjóði. Margfeldisáhrifin er mjög fjölbreytileg, meðal annars koma þau fram í auknum ferðamannastraumi til landsins, fyrir utan beinharða peninga í ríkissjóð í formi allkyns skatta og gjalda. Þessi einfalda staðreynd ætti því að vera öllum ljóst í dag, þótt vert sé að leggja áherslu á að hin "óhagrænu" gildi listarinnar vega margfalt þyngra, til dæmis með að stuðla að andlegri vellíðan þeirra sem kunna að njóta allra þeirra gjafa sem listamenn færa þjóðinni.


Bókmenntaþjóðin

Íslendingar hafa lengi stært sig af því að vera bókmenntaþjóð og fáir véfengja framlag þjóðarinnar til heimsmenningar-innar í formi miðaldabókmennta. Og það þarf ekki að horfa svo langt aftur, einmitt núna á okkar dögum bera íslenskir rithöfundar hróður Íslands víða um heim, íslenskar bókmenntir vekja athygli víða og það er því sorglegt að verða vitni að þeirri andúð sem sjá má hjá Íslendingum sjálfum á bókmenntum og höfundum, andúð sem rís upp á sínar ljótu afturlappir alltaf þegar tilkynnt er um úthlutanir listamannalauna. Andúðin beinist ekki bara gegn listamönnum, skáldum og rithöfundum, heldur einnig gegn bókmenntum sem afurðum listrænnar sköpunar, það er líkast því sem hælbítarnir og öfundarmennirnir átti sig ekki á því mikilvæga hlutverki sem listin gegnir fyrir sjálfsmynd, sjálfsskilning og verðmætamat íslensks samfélags.


Í lok rits Ágústar Einarssonar ritlistina skrifar hann:


Áhrif ritlistar koma ekki síst fram í mikilvægi hennar fyrir menningu þjóðarinnar og sem hluti af menningararfi okkar eru þau gríðarleg. Reyndar er ritlist ein af forsendum fyrir tilvist Íslendingar sem sjálfstæðrar þjóðar. (Hagræn áhrif ritlistar, 2014, bls. 219).

Um leið og ég óska þeim heppnu til hamingju með svo sjálfsagðan hlut og að eiga von á launum fyrir vinnu sína á næsta ári, þótt í flestum tilvikum sé aðeins um nokkra mánuði að ræða, skora ég á ríkisvaldið að endurskoða kerfið allt og meta listir og bókmenntir að verðleikum. Einnig væri tilvalið að efna til aukaúthlutunar, líkt og í fyrra: sömu forsendur eru í fullu gildi í dag og voru þegar sú ákvörðun var tekin.